Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Jólatréslýðræði á Húsavík

29.11.2021 - 09:00
Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Á Húsavík ríkir svokallað jólatréslýðræði því þar kjósa íbúar bæjarins ár hvert um hvaða tré verður jólatré bæjarins. Kveikt var á trénu að viðstöddum börnum úr skólum bæjarins.

Jólatré ársins hlaut afgerandi kosningu

Smári J. Lúðvíksson, umhverfisstjóri Norðurþings, hefur haft umsjón með kosningu á jólatré Húsavíkur síðustu ár. „Tréð var valið með kosningu en á hverju ári síðustu fjögur árin hafa íbúar Húsavíkur boðið tré úr heimagörðum og bærinn tekur og fellur tréð sem vinnur.“

Valið í ár stóð á milli fjögurra trjáa og hlaut tréð sem nú er jólatré bæjarins mjög afgerandi kosningu eða 180 af 200 greiddum atkvæðum. Smári segir marga bæjarbúa bjóða tré úr görðum sínum til að þjóna hlutverki jólatrés bæjarins.  

Nýta trén í bænum

Smári segir að nóg sé að trjám í bænum og í nánasta umhverfi hans. „Það er búin að vera mikil gróska í bænum og það eru að verða mjög stór og mikil gömul grenitré hérna hjá okkur og fyrir vikið eru þessi tré bara orðin of stór í heimagarða og við erum að reyna að nýta þau með því að nota þau sem jólatré bæjarins.“

Börn úr leik- og grunnskólum Húsavíkur komu til að vera viðstödd þegar kveikt var á trénu og sungu jólalög og dönsuðu í kringum jólatréð. Það var augljóslega mikil tilhlökkun meðal barnanna.

Börnin virtust ánægð með tréð sem prýðir bæinn í ár. Smári segir að tilgangur kosningarinnar hafi einmitt verið að sem flestir væru ánægðir með jólatré bæjarins. „Núna eru það íbúar sjálfir sem fá að velja tréð og ef þú ert ekki ánægður með það tré sem var valið þá hefðirðu getað kosið. Það mætti kalla þetta jólatréslýðræði,“ segir Smári.
 

Anna Þorbjörg Jónasdóttir