Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fá lánað í staðinn fyrir að kaupa

Mynd: Sölvi Andrason / Rúv
Nýtnivika stóð yfir dagana 21. - 29. nóvember en markmið hennar er að vekja athygli á óþarfa neyslu og aukinni nýtni. Aðstandendur átaksins vilja benda á að hægt er að fá lánað, gera við og endurnýta. Enginn missir sé af neinu þó ekki sé verið að stökkva á tilboðsvörur.

Nýtnivikan samevrópskt átak

Tilboðsáreiti undanfarinna daga og vikna hefur líklega ekki farið fram hjá neinum sem opnar dagblað, kveikir á útvarpi eða vafrar á netinu. Minna hefur hins vegar farið fyrir yfirstandandi nýtniviku.

Svala Hrönn Sveinsdóttir er verkefnastjóri hjá Amtsbókasafninu á Akureyri, en bókasafnið er eitt af aðalþátttakendum í verkefninu. „Nýtnivikan er samevrópskt verkefni og þemað í ár er hringrásarhagkerfi. Amtsbókasafnið hefur t.d. markvisst verið að innleiða hringrásarhagkerfið í sína starfsemi undanfarin ár. Við höfum meðvitað verið að halda viðburði og lána safnkost, sem fellur undir þetta hugtak.“

Margt annað en bækur sem hægt er að fá lánað

Bókasöfn eru í grunninn hringrásarsamfélag en Amtsbókasafnið hefur gengið lengra og þar má fá ýmislegt annað en bækur að láni. Á Amtsbókasafninu er t.d. hægt að fá lánum borðspil, kökuform og plokkstangir.

Það er líklega óhætt að fullyrða að nýtnivikan rímar ekkert sérstaklega vel við sérstaka tilboðs- og markaðsdaga. Svala segir að nýtnivikan sé frábært mótvægi við ofneyslu svarts föstudags. „Ég hvet alla til að taka eitt skref til baka. Get ég endurnýtt, get ég fengið lánað, get ég verslað umhverfisvænt,“ segir Svala.

Hún segir að stefnan sé að taka þetta enn lengra. „Við ætlum í samstarfi við Reykjavík tool library, að lána út t.d. matarstell fyrir 30 manns, eitthvað sem fólk er ekki endilega að kaupa sér og þarf ekki að kaupa sér.“