Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Atkvæði ógild vegna yfirsjónar kjörstjóra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso - RÚV
Minnst þrettán atkvæði voru ógild í síðustu alþingiskosningum þar sem að undirskrift eða stimpil frá kjörstjóra vantaði. Atkvæðin gætu þó verið mun fleiri því í tveimur kjördæmum af sex liggja þessar upplýsingar ekki fyrir.

Í greinargerð undirbúningskjörbréfanefndar er það sagt alvarlegt að utankjörfundaratkvæði dæmist ógild af ástæðum sem ekki eru á ábyrgð kjósandans sjálfs. Því þurfi að tryggja að kjörstjórnir og starfsfólk sem komi að utankjörfundaratkvæðagreiðslu hafi viðeigandi þekkingu og þjálfun. Sama ábending kom fram í áliti kjörbréfanefndar árið 2017. Þá þurfi einnig að tryggja samræmt verklag við meðferð kjörgagna samhliða gildistöku nýrra kosningalaga.

Skrifstofustjóri Alþingis óskaði eftir upplýsingum um fjölda og ástæður ógildingar utankjörfundaratkvæða í öllum kjördæmum í lok október. Tilefnið var bókun umboðsmanns Sósíalistaflokksins í Reykjavík suður um meðferð utankjörfundaratkvæða þar sem að stór bunki hafi verið metinn ógildur því undirskrift kjörstjóra vantaði.

Í fimm kjördæmum af sex voru 286 atkvæði dæmd ógild en fjöldi ógildra atkvæða kemur ekki fram í svari yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. Þar segir hins vegar að utankjörfundaratkvæðin hafi verið ógild vegna þess að kjósendur hafi mætt á kjörstað. 

Frá Norðausturkjördæmi kom ekki nákvæm sundurliðun á ógildum atkvæðum en samtals voru þau 22. Segir að tvö atkvæðanna hafi verið án fullnægjandi fylgigagna. Í Suðurkjördæmi vantaði stimpil eða undirskrift kjörstjóra á fimm atkvæði en samtals voru ógild atkvæði 59. Í Suðurvesturkjördæmi var engin sundurliðun en þar voru ógild atkvæði langflest eða 160. Þrjú atkvæði vantaði stimpil eða undirskrift kjörstjóra í hvoru Reykjavíkurkjördæminu en samtals voru ógild atkvæði í Reykjavík 45. 

Samkvæmt þessu liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um það hversu mörg utankjörfundaratkvæði á landsvísu voru ekki tekin gild vegna þess að undirskrift kjörstjóra vantaði. Í svarinu er jafnframt bent á að ekki sé kveðið á um það í lögum að halda utan fjölda utankjörfundaratkvæða sem ekki eru tekin til greina eða ástæður þess.

Umboðsmannur Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, þar sem ógildir seðlar voru langflestir, gerði athugasemdir sem skráðar eru í gerðabók landskjörstjórnar. Athugasemdirnar fjalla um takmarkaða möguleika umboðsmanna á kjörstað til þess að fylgjast með framkvæmd kosninganna og alvarlegast hafi verið meðferð ógildra atkvæða af hálfu yfirkjörstjórnar. 

 

Hjördís Rut Sigurjónsdóttir