Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Aldrei fleiri ráðherrar

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Ríkisstjórnin sem tók við völdum í gær er sú fjölmennasta sem verið hefur við völd í meira en áratug. Ráðherrarnir eru nú orðnir jafn margir og þeir urðu flestir í ríkisstjórnum í Íslandssögunni en það var á árunum 1999 til 2010. Ráðherrarnir eru tólf talsins en þeim var fækkað í átta árið 2012 með sameiningu ráðuneyta

Þegar Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 þótti nóg að hafa einn ráðherra Íslands. Sú var raunin í rúman áratug þar til fyrsta ríkisstjórnin var mynduð 1917. Þá voru ráðherrarnir þrír talsins og var það algeng tala næstu árin. Næstu ríkisstjórnir luku reyndar ferli sínum sem tveggja ráðherra stjórnir, tvær eftir andlát eins ráðherrans og ein eftir að einn ráðherrann hætti. 

Það var ekki fyrr en með myndun þjóðstjórnar lýðræðisflokkanna svokölluðu, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, í skugga stríðsógnar sem ráðherrarnir urðu fimm talsins 1939 og þeir urðu ekki sex fyrr en nýsköpunarstjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks tók við völdum 1944 þegar hillti undir lok seinni heimsstyrjaldar.

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Nýsköpunarstjórnin 1944-1946. Sex ráðherrar og höfðu aldrei verið fleiri.

Næstu árin fjölgaði ráðherrum hægt og rólega. Þeir urðu fyrst sjö við myndun viðreisnarstjórnarinnar 1959. Þegar kom fram á áttunda áratuginn og fram á þann tíunda fór ráðherrum fjölgandi því sem næst við hverja stjórnarmyndun. Þeir voru sjö 1971, átta þremur árum síðar, níu við stjórnarmyndun 1978 og tíu árið 1980. Eina skiptið á þessu tímabili sem ráðherrum fækkaði var þegar Alþýðuflokkurinn myndaði minnihlutastjórn sem sat skamma hríð.

Ráðherrarnir urðu fyrst ellefu árið 1987 þegar Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu ríkisstjórn. Hún sprakk ári síðar og þá fengu Framsóknarflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið þrjá ráðherra hver. Ári síðar bættist Borgaraflokkurinn og tveir ráðherrar við ríkisstjórnina. 

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1999, fyrsta tólf ráðherra stjórnin.

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðuflokkurinn mynduðu ríkisstjórn 1991 tók við tímabil þar sem stjórnarflokkarnir áttu jafnmarga ráðherra. Fyrst tíu í tíð fyrrnefndra flokka og á fyrsta kjörtímabili Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokksins við völd. Á öðru tímabili þeirrar stjórnar fjölgaði ráðherrunum í tólf og höfðu þeir þá aldrei verið fleiri. Sú tala hélst fram yfir hrun. 

Samfylkingin og Vinstri græn mynduðu minnihlutastjórn snemma árs 2009 eftir að hrunið varð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar að falli. Tíu ráðherrar voru í minnihlutastjórninni en tólf eftir kosningar. Síðan fór þeim fækkandi þegar leið á tímabilið, fóru niður í tíu, níu og að lokum átta eftir stórfellda sameiningu ráðuneyta.

Síðan þá hefur ráðherrum fjölgað því sem næst við hverja nýja stjórnarmyndun. Þeir voru níu í stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013 þegar hún tók við völdum en fjölgaði í tíu. Tvær ríkisstjórnir sem voru myndaðar árið 2017 voru skipaðar ellefu ráðherrum og nú er komin tólf ráðherra stjórn í fyrsta skipti í rúman áratug.

Mynd með færslu
 Mynd: Stjórnarráðið
Stjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var í lokin sú fámennasta frá því á áttunda áratug síðustu aldar.