Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Varpfuglum í ESB hefur fækkað um hundruð milljóna

28.11.2021 - 05:51
Mynd með færslu
Starar eru á meðal þeirra fugla sem farið hafa hvað verst út úr þróun landbúnaðar í ESB síðustu 40 ár Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Fuglum hefur fækkað um allt að 19 prósent í löndum Evrópusambandinu á síðustu 40 árum. Þetta er niðurstaða viðamikillar rannsóknar sem birt er á vef tímaritsins Ecology and Evolution. Mat rannsakenda er að stofnar varpfugla í ríkjum Evrópusambandsins hafi minnkað um 17 - 19 prósent frá árinu 1980, sem svarar til þess að fuglum hafi fækkað um 560 - 620 milljónir einstaklinga á þessum 40 árum. Mest er fækkunin - jafnt hlutfallslega sem tölulega - meðal tegunda sem helst verpa á landbúnaðarsvæðum.

Í samantekt sinni segja höfundar að rannsóknin og niðurstöður hennar skjóti frekari stoðum undir fyrri rannsóknir sem bendi til verulegs samdráttar í líffræðilegum fjölbreytileika. Þetta kalli á mótvægisaðgerðir sem draga úr hættu á tegundadauða og ýta undir fjölgun fugla á ný, náttúrunni og mannfólkinu til hagsbóta.

Gröspörvastofninn minnkað um 247 milljónir fugla

Gráspörinn er sú einstaka tegund sem verst hefur farið út úr sívaxandi jarðyrkju og landbúnaði á kostnað villtrar náttúru í Evrópusambandinu á þessum 40 árum, en rannsakendur áætla að stofninn hafi minnkað um 247 milljónir fugla. Aðrir fuglar sem hafa farið sérstaklega illa út úr þessari þróun eru starar, gulerlur og sönglævirkjar.

Færri skordýr = Færri fuglar

Í umfjöllun DR um rannsóknina segir að í Danmörku hafi sumir fuglastofnar allt að helmingast. Haft er eftir Henning Heldbjerg, líffræðingi við háskólann í Árósum, að vöxtur og þróun landbúnaðarins sé ein helsta skýringin á versnandi afkomu fuglanna.

Frá miðri 20. öld hefur sífellt meira land verið brotið undir einsleita ræktun sem kallar á hvort tveggja áburð og skordýraeitur. Þetta eyðileggur heimkynni fjölmargra skordýrategunda, helstu fæðuuppsprettu fuglanna. „Svæði með færri ormum, bjöllum og flugum er um leið svæði með færri fuglum,“ segir Heldbjerg. Rannsóknir hafa sýnt svipaða þróun í Norður Ameríku.

Ekki bara landbúnaðurinn sem veldur

Hedbjerg bendir á það er fleira en landbúnaðurinn sem fækkar fuglum; loftslagsbreytingar hafi líka sín áhrif. Hækkandi hitastig hafi áhrif á fæðuframboð fugla sem veldur því að heilu stofnarnir ýmist færi sig, minnki eða hvort tveggja.

Dæmi um þetta er íslenski lundastofninn. Þótt hann sé enn sá stærsti í heimi hefur hann minnkað mjög undanfarin ár og áratugi. Er þetta meðal annars rakið til loftslagsbreytinga og hlýnandi sjávar. Sandsílið, mikilvægasta einstaka fæða lundans, hvarf nánast upp úr 2005.

Ekki hefur fengist einhlít skýring á hruni sandsílastofnsins, en líkur hafa verið leiddar að því að hlýnun sjávar hafi haft sitt að segja. Í sumar sem leið gerðist það hins vegar að sandsílið sneri aftur og lundastofninn tók að braggast eftir því. Var árið í ár eitt besta ár lundastofnsins við sunnanvert landið, að sögn Erps Snæs Hansen, forstöðumanns Náttúrustofnunar Suðurlands. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV