Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Var alltaf markmiðið mitt að verða Íslandsmeistari“

Mynd: RÚV / RÚV

„Var alltaf markmiðið mitt að verða Íslandsmeistari“

28.11.2021 - 19:22
Íslandsmeistaramótið í hnefaleikum fór fram í húsakynnum Hnefaleikafélags Kópavogs í dag. „Þetta er nákvæmlega það sem ég er búinn að vera vinna mér inn fyrir síðustu árin. Þetta var alltaf markmiðið mitt að verða Íslandsmeistari,“ segir Mikael Hrafn Helgason sem var sömuleiðis valinn hnefaleikamaður mótsins.

Sjö bardagar voru á dagskránni, einn í þyngdarflokki kvenna og sex í þyngdarflokkum karla. Í mínus 54 kílóa flokki kvenna undir 17 ára mættust Hildur Kristín Loftsdóttir og Erika Nótt Einarsdóttir báðar frá Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Viðureignin var jöfn og báðar sýndu glæsilega tækni en á endanum fór sigurinn til hinnar 15 ára Hildar Kristínar á klofinni dómaraákvörðun.

„Ég byrjaði í hnefaleikum þegar ég var 11 ára þannig að það eru fjögur ár síðan. Mér fannst þetta bara mjög áhugaverð íþrótt, ég var oft að horfa á MMA, Gunnar Nelson og svona, þannig ég ákvað að byrja í boxi,“ segir Hildur sem segist hafa lært mikið á stuttum tíma. „Ég er bara nýbyrjuð að keppa, þetta var sjötti bardaginn og ég lærði mest á því þegar ég byrjaði að keppa. Ég tapaði fyrsta bardaganum mínum og ég lærði mest á því að tapa þar og ég er búin að vinna mjög mikið síðan,“ segir Hildur Kristín.

Unglingalandsliðsmaður valinn hnefaleikamaður mótsins

Karlamegin í mínus 54 kílóa flokki undir 17 ára hafði Tefik Aziri úr Hnefaleikafélagi Kópavogs betur gegn Noel Frey Ragnarssyni úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur á einróma dómaraákvörðun. Í mínus 67 kílóa flokki undir 17 ára mættust unglingalandsliðsmennirnir Mikael Hrafn Helgason úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur og Aron Haraldsson úr Hnefaleikafélagi Hafnarfjarðar. Báðir eru afar efnilegir og viðureignin var jöfn og spennandi. Að lokum var það Mikael Hrafn sem tók titilinn á einróma dómaraákvörðun en hann var sömuleiðis valinn hnefaleikamaður mótsins og fékk því afhentan Bensabikarinnn.

„Ég er bara mjög ánægður með sjálfan mig, þetta var mjög erfitt, gegn mjög erfiðum andstæðingi. En ég er Íslandsmeistari núna, bara þakklátur fyrir það og þetta er nákvæmlega það sem ég er búinn að vera vinna mér inn fyrir síðustu árin. Þetta var alltaf markmiðið mitt að verða Íslandsmeistari,“ segir Mikael. Hann hefur ekki æft lengi en sannarlega náð langt á stuttum tíma. „Ég byrjaði í boxi fyrir þremur árum og ég hef öðlast miklu meira sjálfstraust og þetta er bara búið að vera ógeðslega gaman.“

„Ég hlakka bara til að byrja keppa aftur á næsta ári“

Í mínus 71 kílóa flokki mættust svo Emin Kadri Eminsson úr Hnefaleikafélagi Kópavogs og Hilmir Þór Ólafsson úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur. Báðir hnefaleikamenn sýndu framúrskarandi tækni og buðu uppá flotta viðureign en dómararnir voru allir sammála um að Íslandsmeistaratitillinn færi til Emins Kadri. „Þetta var bara mjög gott, ég er búinn að vera vinna mikið þetta árið. Þetta er búið að vera gott ár, mjög busy ár að keppa mjög mikið og ég hlakka bara til að byrja keppa aftur á næsta ári,“ segir Emin.

Í mínus 75 kílóa flokki karla undir 19 ára hafði Hákon Garðarsson úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur betur gegn Jóni Marteini Gunnlaugssyni úr Æsi en hann vann á einróma ákvörðun. Þá var komið að fullorðinsflokkum karla. Í mínus 75 kílóa flokki varð Baldur Hrafn Vilmundaarsson úr Hnefaleikafélagi Reykjavíkur Íslandsmeistari á einróma dómaraákvörðun eftir harðan og jafnan bardaga við Bjarka Smára Smárason úr Hnefaleikafélagi Kópavogs. Í þyngsta flokknum. yfir 92 kílóa flokki, hafði Elmar Freyr Aðalheiðarsson úr Hnefaleikadeild Þórs betur gegn Stefáni Blackburn úr Æsi á einróma dómaraákvörðun eftir líflegan bardaga.

Viðtölin og fréttina í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.