Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tugir þúsunda mótmæltu sóttvarnaaðgerðum í Austurríki

epa09600781 People walk next to a COVID-19 testing and vaccination station during a nationwide lockdown in Vienna, Austria, 24 November 2021. Austrian Chancellor Alexander Schallenberg announced a mandatory vaccination against the SARS-CoV-2 coronavirus by February 2022, and a general nationwide lockdown to stem the ongoing pandemic of COVID-19 starting 22 November.  EPA-EFE/CHRISTIAN BRUNA
Strangt útgöngubann er í gildi í Austurríki Mynd: EPA-EFE - EPA
Um 40.000 manns mótmæltu ströngum og víðtækum sóttvarnaaðgerðum stjórnvalda í Austurríki í gær. Mótmælin voru að mestu bundin við þrjár borgir; Graz, Klagenfurt og St. Pölten. Fjölmennust voru þau í Graz, þar sem allt að 30.000 manns tóku þátt í tvennum mótmælum sem runnu saman að lokum.

Mótmælin fóru að mestu friðsamlega fram í Graz og Klagenfurt en nokkrir mótmælendur voru handteknir í St. Pölten, þar sem um 3.500 manns mótmæltu útgöngubanni, samkomutakmörkunum, grímuskyldu, heilsupassa og öðrum aðgerðum stjórnvalda sem miða að því að halda farsóttinni í skefjum.

Ellefu mótmælendur voru handteknir í St. Pölten og um 200 kærðir fyrir brot á hinum ýmsu sóttvarnareglum, flestir fyrir að fara ekki að reglum um grímuskyldu. Austurríska blaðið Kurier hefur eftir lögreglu að einungis um þriðjungur mótmælenda hafi verið með grímu.