Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Stórar frásagnir í Norræna húsinu

Mynd: Alice Creischer / Alice Creischer

Stórar frásagnir í Norræna húsinu

28.11.2021 - 14:00

Höfundar

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir lagði leið sína í Hvelfinguna, sýningarsal Norræna hússins, þar sem nú stendur yfir aðkallandi sýning um jarðfræðileg og jarðsöguleg fyrirbæri af ýmsum toga.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Í Hvelfingunni, sýningarsal Norræna hússins, stendur nú yfir myndlistarsýning undir yfirskriftinni Time Matter Remains Trouble. Titillinn er ekki þýddur í kynningarefni, en hann er upptalning á hugtökum sem útleggja mætti á íslensku sem tími, efni, minjar, vandi. Þótt hér sé búið að þjappa saman í eina runu stórum og flóknum fyrirbærum, sem helst þyrfti að staldra við hvert og eitt til að geta náð utan um þau, þá þarf ekki að rýna lengi í yfirskriftina til að geta sér til um að hér er á ferðinni sýning um samband okkar við náttúruna og þau vandræði sem við stöndum frami fyrir andspænis henni. Listamennirnir sex sem taka þátt í sýningunni eru finnska listamannakollektívið nabbteeri, hin þýska Alice Creischer, og íslensku listamennirnir Anna Líndal, Anna Rún Tryggvadóttir og Bjarki Bragason. Sýningarstjórn er í höndum Arnbjargar Maríu Danielsen og aðstoðarsýningarstjóri er Veigar Ölnir Gunnarsson.

Rétt eins og titilinn sjálfur er sýningarstjórnunarlegt konsept sýningarinnar einnig yfirgripsmikið, þar sem m.a. er leitast við að skoða þær aðferðir sem manneskjan hefur komið sér upp til að skrásetja og varðveita efni, fyrirbæri og þekkingu úr náttúrunni. Umbreytingarferlar náttúrunnar eru skoðaðir, spurt er um afstæði tímans og mögulega sjálfsblekkingu þess að skipta honum niður í fortíð, nútíð og framtíð, og vöngum velt yfir hvers konar líf muni lifa okkur mannfólkið af á næstu milljónum ára.

Mynd með færslu
 Mynd: Pétur Thomsen - Anna Líndal

Þetta eru stórar spurningar sem nálgast má á ólíka vegu, eftir því hvaða sjónarhóli er horft af. Hér er gerð tilraun til að ávarpa þær út frá sjónarhorni myndlistarinnar, um leið og daðrað er við vísindin. Þannig tekur á móti okkur innsetning Önnu Líndal við inngang sýningarinnar sem hún kallar „Menjar um tilfinningalegan skjálfta“. Þar stillir hún upp sýnishornum af jarðvegi, hraunmolum og plöntum, sem hún hefur safnað af vettvangi eldgossins í Geldingadölum. Anna stillir efninu upp í plastpokum merktum stund og stað sem þeim var safnað á, með tilvísun í aðferðir raunvísindanna, eða setur gripina fram í sýningarkössum líkt og á náttúruminjasafni. Þá gerir hún tilraun að halda lífi í plöntum sem hún hefur bjargað undan hrauninu með því að skapa lífvænlegar aðstæður inni í sýningarsalnum. Anna vinnur hér, líkt og svo oft áður, á landamærum lista og vísinda, um leið og hún setur fram vangaveltur um dauða náttúru og lifandi, nýja náttúru og gamla, um leið og hún spyr hvaða merkingu það hefur að fjarlægja hlut úr sínu náttúrulega umhverfi og færa hann inn í nýtt samhengi.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Alice Creischer

Verk Alice Creischer fjallar einnig um varðveislu og geymd þess sem jörðin getur af sér, en þó með öllu pólitískara yfirbragði. Í vídeó- og skúlptúrverkinu „In the Stomach of the Predator“ gerir hún fræhvelfinguna á Svalbarða að viðfangsefni sínu, þar sem hún beinir sjónum að þeim hagsmunum sem liggja að baki stórfyrirtækja sem eru bakhjarlar hvelfingarinnar. Fyrirtæki sem alla jafna stunda einokun á fræjum og landbúnaði en fá hér vettvang til að grænþvo sig. Sem yfirlýstur aktívisti tengir hún slíkan rándýrskapítalisma við þá þróun sem hefur átt sér stað á myndlistarsviðinu, þar sem stórir tvíæringar færast í sífellt auknum mæli út á jaðarinn til fátækari landa. Til að fjalla um svo flókið málefni, eins og áhrif kapítalismans á tengsl okkar við náttúruna og hvort annað, grípur Alice til húmors og leikrænnar tjáningar, þar sem auðvaldið eru sett fram í líki rándýra, eins og úlfs eða hýenu, í frásögn sem sviðsett er í raunverulegum aðstæðum á Svalbarða eða í Ghana.

Mynd með færslu
 Mynd: Pétur Thomsen - Anna Rún Tryggvadóttir

Anna Rún setur sitt efni einning fram í einhverskonar sviðsetningu, þó ekki á sama leikræna hátt og Alice. Líkt og fræhvelfingin skrásetur og varðveitir frætegundir jarðar til frambúðar, þá vinnur Anna Rún með þann eiginleika jarðar að skrásetja ummerki um stór jarðsöguleg fyrirbæri, eins og breytingar á segulsviði jarðar. Í verkinu „Geymd“ sjáum við þrjá berghnullunga sitja á stöllum úr mjúkum svampi, og yfir hverjum þeirra hanga nálar sem vísa hver í sína átt og gefa þannig til kynna segulsviðið á þeim tíma sem þeir urðu til í jarðsögunni. Á veggjum eru vatnslitaverkin „Ókerfisbundin teikning“, sem eru einskonar skrásetning á því ferli sem á sér stað á vinnustofunni þegar hleðslan í steinefnum litanna verður fyrir áhrifum af seglum, sem aftur mynda hreyfingu í teikninguna. Þannig dregur Anna Rún fram performatíva eiginleika náttúrulegra fyrirbæra, og kannar möguleika efnis á að vera vitnisuburður um afdrifaríka atburði í eigin sögu. Verkið hvetur áhorfandann til að fara út úr eigin líkama og reyna að ímynda sér yfirþyrmandi stóra skala og torskilin fyrirbæri, sem erfitt er að henda reiður á.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Bjarki Bragason

Verk Bjarka, „Fyrir nú“, fjallar einnig um skala og jarðsöguleg tímabil, þar sem hann myndar rofabarð á Mývatnsöræfum, síðustu leifar gróðurs í andarslitrunum. Verkið er tekið upp á myndavél alveg niðri við jörð, þannig að erfitt er að átta sig á stærðarhlutföllum. Við sjáum smáatriðin í nærmynd þar sem við fylgjum myndavélinni næstum strjúkast eftir jörðinni, og áttum okkur illa á heildarmyndinni. Stundum er eins og við séum að ráfa um á sviðinni jörð eftir skógarelda, en svo fer myndavélin skyndilega á hvolf og maður sér glitta í himinn og áttar sig þá á hlutföllum: þetta eru smáar rótartægjur og stöku strá sem stingast upp úr skraufþurri, lífvana jörð. Bjarki sýnir vídeóið hrátt, án allra effekta, með hljóðrás sem eykur á dómsdagstilfinningu með nöturlegu vindgnauðinu. Það er ekki laust við að hér fá maður tilfinningu fyrir missi, um vitnisburð um eitthvað sem var en er ekki lengur, og kannski má greina einhverskonar löngun til endurheimtar eða björgunaraðgerða, líkt og í verki Önnu Líndal.

Mynd með færslu
 Mynd: nabbteeri

Það er kannski helst verk finnska teymisins nabbteeri, þar sem einhverskonar framtíðarsýn er sett fram í tengslum við örlög jarðar. Í stórri innsetningu eru settir fram fundnir hlutir úr nærumhverfi Norræna hússins, mestmegnis rusl eða rotnandi hlutir sem misst hafa hlutverk sitt. Hlutirnir hafa verið hjúpaðir bývaxi og hengdir upp á víð og dreif í rýminu, líkt og steingervingar framtíðarinnar. Í spekúlatívu kvikmyndaverki skoða þau tengsl milli manngerðra hluta, náttúrunnar og stafrænna objekta. Verkið snertir á heimspekilegan hátt á pælingum um tungumálið og tengsl milli orða og hluta, þar sem ólíkum textabrotum sem skeytt saman í einskonar bútasaum, og framburður er bjagaður. Þarna hafa hlutir skolast til og merking orðin óræð, um leið og unnið er með hið kunnuglega. Líkt og í öðrum verkum á sýningunni má hér finna fyrir hugleiðingum um manngerða náttúru andspænis sjálfsprottinni, og hvar mörk náttúru og ó-náttúru liggja.

Verk allra listamannanna sex skapa áhugaverða heild, þar sem litlar sneiðmyndir fremur en ein stór heildarmynd eru settar fram. Vegleg rafræn sýningarskrá þykkir svo sýninguna enn frekar, og er í raun mikilvægt hjálpartæki fyrir áhorfendur til að átta sig betur á verkunum og hvernig þau ávarpa þær spurningar sem settar eru fram í innrömmun sýningarinnar.

En sýningin er miklu meira en samsafn verkanna sem er að finna í Hvelfingu Norræna hússins. Hér er augljóslega verið að vinna með þá tegund af sýningarstjórn sem nær út fyrir sýningarstaðinn sjálfan, þar sem vettvangur er skapaður fyrir frásagnir í öðru formi en listaverka. Viðburðadagskrá sýningarinnar er ríkuleg og samanstendur af viðburðum af ýmsu tagi, meðal annars vandaðri dagskrárröð í samstarfi við stofnun Sæmundar fróða við Háskóla Íslands. Viðburðaröðin er sett fram undir yfirskriftinni „Sjálfbær samruni – samtal lista og vísinda um sjálfbærni“, þar sem blandað er saman fræðilegum erindum, listrænum uppákomum, persónulegum frásögnum og umræðum, sem á einn eða annan hátt fjalla um lausnir og leiðir að sjálfbærri þróun. Þessum viðburðum hefur verið streymt í rauntíma auk þess sem hægt er að skoða upptökur á Facebook-síðu Norræna hússins, og þannig nær sýningin til enn stærri hóps áhorfenda.

Þessi samsuða áleitinna myndlistarverka og ríkulegrar viðburðadagskrár gerir þessa sýningu að mikilvægu framlagi til orðræðunnar um umhverfisvandann. Þótt sýningarstjórnunarlegi ramminn sé eiginlega yfirþyrmandi stór, þá má líta á verk listamannanna og innleggin í viðburðadagskránni, sem merkingarbærar tillögur að frásögnum. Samanlagt mynda þessar frásagnir fjölbreytta verkfærakistu sem okkur stendur til boða til að skilja, skynja og greina með. Svo lengi sem við leggjum okkur fram við að hlusta.

Tengdar fréttir

Pistlar

Staðreyndir og spekúlasjónir í Skaftfelli 

Pistlar

Samsláttur listgreina á Sequences

Pistlar

Myndlistin í tómarúmi vísindanna

Pistlar

Snemmbúin sköpunarsaga íslenskrar myndlistar