Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Leggja áherslu á loftslagsmál og heilbrigðismál

28.11.2021 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ný ríkisstjórn ætlar að setja loftslagsmál í forgang og styrkja stöðu Landspítalans. Sérstök áherslu verður lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Þá stendur til að stofna þjóðgarð á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendingu og ríkisstjórnin ætlar að setja af stað vinnu sérfræðinga um nokkur ákvæði stjórnarskrárinnar.

Formenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks kynntu nýjan stjórnarsáttmála á Kjarvalsstöðum rétt í þessu. Stjórnarsáttmálinn var kynntur flokksmönnum í gær og samþykktur með miklum meirihluta atkvæða.

Loftslagsmál fyrirferðamikil

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að Ísland eigi að vera í fararbroddi í umhverfismálum á alþjóðavísu. „Við munum setja okkur sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrgð Íslands fyrir 2030 miðað við árið 2005. Lögð verður áhersla á markvissar og metnaðarfullar aðgerðir til að draga úr losun vegna landnotkunar og hraða orkuskiptum á öllum sviðum,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Markmiðið er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum ekki síðar en árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja. „Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verði gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins og í takt við vaxandi orkunotkun samhliða útfösun jarðefnaeldsneytis,“ kemur þar fram.

Styrkja gjörgæslu og bráðadeildir

Hvað heilbrigðismálin varðar stendur til að halda áfram að draga úr greiðsluþátttöku fólks fyrir heilbrigðisþjónustu til að tryggja jafnt aðgengi. „Staða og hlutverk Landspítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnunar landsins verður styrkt og sérstök áhersla lögð á að fylgja eftir uppbyggingu gjörgæslu og bráðadeildar. Heilbrigðisstofnanir verða styrktar til að tryggja að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og aðgengi jafnað um land allt,“ segir í sáttmálanum.

Þá stendur til að efla geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla hópa samfélagsins. „Geðheilsuteymi verða efld um land allt, áhrif notenda á þjónustuna aukin, forvarnir bættar og áhersla lögð á að veita fjölbreytta þjónustu sem er miðuð að ólíkum þörfum.“

Þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og sérfræðingar skoða stjórnarskránna

Stofnaður verður þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum í þjóðlendum á hálendinu með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. „Áhersla verður lögð á samtal og samvinnu við heimamenn og svæðisráðum fjölgað. Lokið verður við þriðja áfanga rammaáætlunar og kostum í biðflokki verður fjölgað,“ segir í stjórnarsáttmálanum.

Þá ætlar ríkisstjórnin að setja af stað vinnu sérfræðinga um ákvæði stjórnarskrár um Alþingi, kosningar og kjördæmaskipan, dómstóla og eftir atvikum önnur ákvæði. Efna á til samstarfs við fræðasamfélagið um umræðu og umfjöllun um stjórnarskrárbreytingar og verður framhald vinnu við þær breytingar metið í framhaldinu.

Lækka skatta og stuðla að umhverfi lágra vaxta

Í stjórnarsáttmálanum kemur fram að það sé forgangsmál ríkisstjórnarinnar að stuðla áfram að efnahagslegum og félagslegum stöðugleika á kjörtímabilinu. Ríkisstjórnin ætlar að leggja sitt af mörkum til að stuðla að umhverfi lágra vaxta, hóflegrar verðbólgu og góðu samráði við aðila vinnumarkaðarins.

„Almannaþjónustan verður efld frekar og skattar lækkaðir í samræmi við þróun ríkisfjármála með það að markmiði að bæta lífskjör þeirra sem verst standa og styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, þar sem meðal annars verður sérstaklega litið til lítilla og meðalstórra fyrirtækja,“ segir í stjórnarsáttmála flokkanna.

Þá á að gera úttekt á starfsemi Seðlabanka Íslands og leggja mat á hvernig tekist hefur til við að uppfylla markmið um stöðugt verðlag, fjármálastöðugleika og framkvæmd fjármálaeftirlitsins.

Kortleggja sjávarútveginn og móta heildstæða stefnu um fiskeldi

Skipuð verður nefnd til að kortleggja áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum og meta þjóðhagslegan ávinning fiskveiðistjórnunarkerfisins. Nefndinni verður falið að bera saman stöðuna hér og erlendis og leggja fram tillögur til að hámarka möguleika Íslendinga til frekari árangurs og samfélagslegrar sáttar um umgjörð greinarinnar.

Þá verður mótuð heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku fiskeldis. „Við þá vinnu verður lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna“ segir í stjórnarsáttmálanum.