Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Kom Jóni á óvart að hann færi í dómsmálaráðuneytið

Mynd: RUV / RUV
Jón Gunnarsson, nýr dómsmálaráðherra, segir að það hafi komið honum á óvart að hann hafi fengið þetta ráðuneyti. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir ræddi við nýju ráðherra ríkisstjórnarinnar á tröppunum á Bessastöðum í dag.

Ný ríkisstjórnarfund tók formlega við á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Þar voru tveir nýjir ráðherrar; Jón Gunnarsson sem verður dómsmálaráðherra og Willum Þór Þórsson sem verður heilbrigðisráðherra. Jón segist spenntur fyrir verkefninu en mörg stór mál bíði. „En ég er bara þakklátur fyrir traustið frá þingflokknum og formanni flokksins að treysta mér fyrir þessum mikilvægu málaflokkum. Ertu ánægður með stjórnarsáttmálann? Jájá, auðvitað er margt í honum sem maður hefði viljað sjá með öðrum hætti en þetta er þriggja flokka ríkisstjórn og ber keim af því, og bara fín málamiðlun,“ sagði Jón Gunnarsson áður en hann fór inn á ríkisráðsfund.

Willum Þór Þórsson, nýr heilbrigðisráðherra, sagði mikla eftirvæntingu fyrir ríkisráðsfundi þar sem hann tók formlega við embætti. Jóhanna Vigdís spurði hann hvort honum liði eins og hann væri að fara í bikarúrslitaleik, en Willum er reyndur fótboltaþjálfari. „Nokkurn veginn þannig já, það er mikil eftirvænting og fiðringur, mikið að meðtaka. Þannig að því leytinu er þetta ekki svo ólíkt. Og þú ætlar þér sigur? Ójá,“ sagði Willum á tröppunum á Bessastöðum í dag.