Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engar reglur um sláturskip sem borga stundum ekki gjöld

28.11.2021 - 15:15
Norska sláturskipið Norwegian Gannet. Kom til landsins í febrúar 2020 til að aðstoða Arnarlax við slátrun eftir 570 tonna laxadauða.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Formaður Hafnasambands Íslands segir að hafnir landsins grípi í tómt þegar leitað er eftir reglum um sláturskip. Skipin taki eldislax beint úr kvíum án þess að greiða hafnargjöld. Á sama tíma geri eldisfyrirtækin kröfu um góðar hafnaraðstæður og þjónustu. Skorað er á stjórnvöld taka notkun sláturskipa til skoðunar.

Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði og formaður Hafnasambands Íslands, segir að töluverður ágreiningur sé á milli hafna og fiskeldis um hvernig innheimta eigi aflagjöld og gjöld fyrir aðra þjónustu. „Þá er margt í þjónustunni við þessa starfsemi sem er að eiga sér stað úti á hafnarsvæðinu án þess að menn greiði nein gjöld fyrir að vera á þessu svæði. Varðandi fóðurskipin. Varðandi það að koma olíu á skip sem eru þarna úti á svæðinu og svo er það nýjasta sem tengist þessum sláturskipum. Það er að segja aflinn kemur ekkert á land heldur er hann tekinn um borð í skip úti á firði beint úr kvíunum og slátrað þar og siglt með hann í burt. Menn sitja eftir með það að svæðin og plássin eru ekki að hafa neinar eðlilegar tekjur af þessari starfsemi."

Sveitarfélögin hafi þar að auki þrýst á um að tekin verði upp eðlileg greiðsla fyrir þann afla sem kemur að landi og er unninn þar. Frumvarp um heimild ráðherra til að setja reglugerð þar um hafi daga uppi á síðasta þingi. 

Sláturskip hafi komið í Arnarfjörð og slátrað upp úr kvíum. Sá afli hafi ekki komið að landi og ekki verið greidd af honum nein gjöld. Hafnasambandið hvetur stjórnvöld til að setja skýrar reglur um sláturskipin. „Þetta er auðvitað nýmæli, að það komi bara skip siglandi og taki afla upp úr kvíum og verki hann og slátri úti á sjó og sigli svo bara í burtu. Og þegar menn eru að leita skýringa á því hvaða heimildir eru veittar fyrir þessu og hvernig er staðið að þessu og hvað er heimilt og hvað ekki þá bara standa menn frammi fyrir því að það hefur aldrei verið neitt hugsað út í þetta. Aldrei verið sett neitt regluverk í kringum þetta í ráðuneytunum. Við erum bara einhvern veginn langt á eftir," segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri í Hafnarfirði og formaður Hafnasambands Íslands.

Úr fundargerð stjórnar Hafnasambands Íslands frá 12. nóvember 2021:

„Lögð fram fyrirspurn Vesturbyggðar og Tálknafjarðahrepps til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins dags. 14. október 2021 vegna sláturskipsins Norweigan Gannet í október 2021, þar sem 500 tonnum af eldisfisk var dælt úr kvíum í Tálknafirði og siglt með beint til Danmerkur til vinnslu og pökkunar. Einnig lögð fram svör ráðuneytisins um starfsemi sláturskipa í fiskeldi dags. 4. nóvember 2021. Samkvæmt svörum ráðuneytisins er ekki fjallað um starfsemi sláturskipa í fiskeldi í ákvæðum íslenskra laga en á grundvelli 37. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020 veitti Matvælastofnun heimild fyrir komu sláturskipsins á grundvelli jákvæðrar umsagnar fisksjúkdómanefndar, þar sem talið var sannað að smitefni bærust ekki með skipinu sem valdið geta dýrasjúkdómum.

Stjórn Hafnasambands Íslands lýsir yfir áhyggjum af notkun og starfsemi sláturskipa í fiskeldi og þeirra neikvæðu áhrifa sem þau hafa á rekstrarumhverfi hafna. Notkun slíkra skipa skerðir verulega tekjumöguleika þeirra hafna þar sem eldisfisk er dælt til slátrunar og vinnslu en á sama tíma gera eldisfyrirtækin kröfu um góða hafnaraðstæður og að þjónusta sé til staðar. Stjórn hafnasambandsins hvetur til þess að starfsemi og notkun sláturskipa í fiskeldi verði sérstaklega tekin til skoðunar og sett verði skýr ákvæði í lög og reglugerðir um starfsemi og notkun sláturskipa hér við land. Samhliða þeirri vinnu verði horft til endurskoðunar á ákvæðum hafnalaga nr. 61/2003 vegna fiskeldis, sem hafnasambandið hefur hvatt til að verði endurskoðuð (umsögn hafnasamband Íslands 31. ágúst 2020)."

Leiðrétting 01.12.2021: Í fyrri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að sláturskip hefði tvisvar komið til Vestfjarða og siglt með fiskinn burt. Arnarlax vill að fram komi að þegar Norwegian Gannet slátraði úr kvíum fyrirtækisins landaði skipið á Bíldudal og var fiskinum pakkað í verksmiðju fyrirtækisins og öll gjöld greidd til hafnarinnar. 

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV