
Bretar boða neyðarfund vegna faraldurs
Bretland er meðal þeirra ríkja þar sem ómíkron hefur greinst. Afbrigðið var fyrst uppgötvað í sunnanverðri Afríku, en hefur síðan greinst víða í Evrópu og Ástralíu. Fjöldi Evrópuríkja og fleiri ríki heims hafa stöðvað flugferðir frá nokkrum ríkjum í sunnanverðri Afríku á meðan verið er að kanna hversu alvarlegt þetta nýja afbrigði er. Það virðist breiðast hratt út, en á móti virðist afbrigðið valda mun vægari einkennum en fyrri afbrigði kórónuveirunnar.
Ríki slaki á ferðabönnum
Yfirmaður Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar í Afríku hvetur ríki heims til þess að fylgja vísindunum eftir frekar en að leggja á flugbann til ákveðinna landa vegna ómíkron afbrigðis kórónuveirunnar. Cyril Ramaphosa, forseti Suður-Afríku, tekur undir þessa kröfu og kallar eftir því að ríki dragi ákvarðanir sínar um ferðabann frá Suður-Afríku tafarlaust til baka, enda egi þær sér enga stoð í vísindaheiminum.
Heimsfaraldurssáttmáli í undirbúningi
Aðildarríki Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar komust að samkomulagi í dag um að hefja vinnu við faraldurssáttmála þar sem línur verða lagðar um viðbrögð við næsta heimsfaraldri. Fulltrúar ríkjanna sitja fund í vikunni til þess að stilla saman strengi.
Í yfirlýsingu fulltrúa Evrópusambandsins hjá stofnuninni segir að atburðir undanfarinnar viku sýni hversu mikil þörf sé á alþjóðlegri samstöðu og leiðsögn.