Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Vinnur úr eigin reynslu af fordómum í listinni

Mynd: RÚV / RÚV

Vinnur úr eigin reynslu af fordómum í listinni

27.11.2021 - 09:36

Höfundar

Setningar sem hafa orðið á vegi Melanie Ubaldo í gegnum lífið hafa öðlast annað líf sem hluti af myndlistarverkum hennar. Þar vinnur hún með niðrandi orðræðu og hversdagslega fordóma sem hún hefur orðið fyrir um ævina.

Þann 18. nóvember var úthlutað í tólfta sinn úr Styrktarsjóði Svavars Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur. Úthlutað er úr sjóðnum á tveggja ára fresti og að þessu sinni hlaut Melanie Ubaldo styrkinn.

Melanie fæddist árið 1992 á Filippseyjum en býr nú og starfar í Reykjavík. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar hér á landi og tekið þátt í hópsýningum bæði hérlendis sem og erlendis. Hún er einn stofnenda Lucky 3 listahópsins, sem samanstendur af íslenskum myndlistarmönnum af filippseyskum uppruna.

Verk Melanie eru sjálfsævisöguleg og varpa ljósi á heim Íslendinga af erlendum uppruna, á fordóma, misrétti og hatursorðræðu. En einnig kvennamenningu, uppeldi, tengsl, heimili og minningar. Verkin eru gagnrýnin og beinskeytt en um leið fínleg og viðkvæm. 

Melanie er að klára meistarapróf við Listaháskóla Íslands og þessa dagana vinnur hún að nýju textaverki og málverki sem hún vinnur úr samsettum efnisbútum úr dánarbúi ömmu kærasta síns.

„Pælingin er að sauma saman hús,“ segir Melanie í viðtali í Víðsjá á Rás 1. Fyrirmyndin er æskuheimili hennar á Filippseyjum. „Við bjuggum í þessu örlitla húsi, sem var eiginlega skúr, og við vorum fimm manna fjölskylda í því. Ég man svo lítið eftir þessu húsi, en ég er að reyna að púsla saman minningum frá mömmu, pabba og systkinum mínum um það hvernig það leit út til að fanga þessa tilfinningu sem ég fæ enn þá. Þetta var svo lítið, að hugsa sér, að fimm manna fjölskylda bjó í svo örlitlu rými. Þetta er smá sorglegt.“

Í textaverkinu vinnur hún með öráreitni og niðurlægjandi hatursorðræðu, sem hún sjálf hefur orðið fyrir, í upphleyptu prenti. „Þetta er allt sjálfsævisögulegt. Þetta eru setningar sem fólk segir við mig og um mig. Í skissubókinni minni er samansafn þessara texta. Þetta er ekki gaman en þetta er efniviðurinn sem ég er að vinna með.“

„Þú ert samt hvítasta dökka manneskjan sem ég þekki.“

„What are you doing in Iceland with your face?“

„Er einhver Íslendingur að vinna hér?“

„Grjón.“

„Þessi talar íslensku.“

„You look Indian so you get Indian price.“

Skömmu eftir að Melanie hóf nám í Listaháskólanum varð hún meðvituð um að hún gæti nýtt þessa reynslu í listinni eftir að hún heyrði vinkonu sína segja „she‘s more asian than me“ eða „hún er asískari en ég“ í samtali við aðra manneskju. „Við vorum báðar asískar en það er einhvers konar flokkun í gangi, sem mér fannst mjög áhugaverð.“ Í framhaldinu fór hún að vinna með grófari og erfiðari setningar.

„Þetta er það sem knýr mig áfram á þessum tímapunkti, kannski breytist það í framtíðinni. En ég held að þegar ég, sem asísk kona, íslensk og brún, geng út um dyrnar og um bæinn að þá fer í gang pólitík. Það er ekki hægt að komast undan því.“

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

En Melanie þykir mikilvægt að halda í gleðina. Í bland við erfið viðfangsefni er oft húmor og leikur í verkunum. Í útskrifarverkefni hennar úr BA-náminu í Listaháskólanum gerði hún til dæmis góðlátlegt grín að sambandi sínu við móður sína.

„Verkið var samansaumur af öllum málverkunum sem ég gerði í skólanum á þessu þriggja ára tímabili. Þar stóð setningin sem hún sagði við mig þegar ég lét hana vita að ég komst inn í Listaháskólann: „Melanie, I‘m very disappointed in you“ (eða „Melanie, þú veldur mér miklum vonbrigðum“). Þannig að þetta blasti við þegar maður labbaði inn í Hafnarhúsið á útskriftarsýninguna.“

Maður á ekki að taka myndlist svo alvarlega, segir Melanie að lokum. „Það er margt alvarlegra en myndlist, meðan heimurinn brennur. Það er svo mikil forréttindastaða að vera myndlistarmaður, það er jafnvel það eigingjarnasta sem þú getur gert en samt er svo gefandi fyrir mann sjálfan að skapa. Þrátt fyrir allt þá er það fegurð og frelsi sem felst í því að vera listamaður, ég held að það sé tilgangurinn minn. Ef það væri ekki nein von í neinu þá væri það dagurinn sem ég hætti að skapa.“

Rætt var við Melanie Ubaldo í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið í heild má hlusta á í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Myndlist

Vilja vera með læti í snjóhvítu rými