Sæþór sigraði í bakaraslagnum mikla í Danmörku

Mynd með færslu
 Mynd: Agnete Schlichtkrull - DR

Sæþór sigraði í bakaraslagnum mikla í Danmörku

27.11.2021 - 23:10

Höfundar

Íslendingurinn Sæþór Kristinsson gerði sér lítið fyrir og bakaði mótherja sína í dönsku bakarakeppninni Den Store Bagedyst, sem sýnd er í danska ríkissjónvarpinu við feiknavinsældir. Úrslitaþátturinn var sýndur í kvöld, þar sem slagurinn stóð á milli þriggja úrvalsbakara sem hrist höfðu af sér sjö minni spámenn, einn af öðrum, í fyrri þáttum.

Á vef DR segist Sæþór ekki hafa trúað eigin eyrum þegar hann var útnefndur sigurvegari jafnvel haldið eitt augnablik að verið væri að fíflast í honum.

Eldfjöll og malt og appelsín

Lokaverkefni Sæþórs samanstóð af þremur tertum, innblásnum af Íslandi, íslenskum hefðum og íslensku fánalitunum og því sem þeir standa fyrir; eldi, ís og vatni.

„Fullkomnun“ var orðið sem dómararnir notuðu um útfærslu Sæþórs á lokaverkefninu. Þeir kolféllu fyrir hinni klassísku blöndu af malti og appelsíni, sem var ein þeirra íslensku hefða sem Sæþór vann með, og rauðglóandi kvikutertan sló vakti sérstaka hrifningu.

Móðir Sæþórs hvatti hann til þátttöku

Sæþór á ekki langt að sækja bakarahæfileikana því móðir hans „elskaði að baka“ eins og segir í frétt DR, og það var hún sem hvatti hann til að reyna að komast í Bakaraslaginn mikla. Hún náði þó ekki að upplifa þátttöku og sigur Sæþórs, því hún lést fyrr á þessu ári. 

Hér svarar Sæþór spurningum og athugasemdum áhorfenda.