Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Misklíð Breta og Frakka eykst enn og flækist

27.11.2021 - 03:34
epa09598990 Britain's Prime Minister Boris Johnson attends a bilateral meeting with President of Israel Isaac Herzog (not pictured) at 10 Downing Street in London, Britain, 23 November 2021.  EPA-EFE/NEIL HALL / POOL
Tillaga Borisar Johnson um að senda ólöglegt flóttafólk aftur til Frakklands vekur litla kátínu hjá Frökkum Mynd: EPA-EFE - EPA INTERNATIONAL POOL
Krytur Breta og Frakka heldur áfram að vinda upp á sig. Innanríkisráðherra Frakklands afturkallaði í gær boð sitt til breska innanríkisráðherrans á fund um straum flóttafólks yfir Ermarsundið. Ástæðan er bréf Borisar Johnson, forsætisráðherra Bretlands, til Emmanuels Macrons, Frakklandsforseta, þar sem hann leggur til að Frakkar taki aftur við hverjum þeim flóttamanni sem þaðan kemur til Bretlands.

Hörmulegt slys og pólitísk refskák

27 flóttamenn drukknuðu á Ermarsundi í liðinni viku er bátur þeirra sökk þegar þeir reyndu að komast sjóleiðina frá Frakklandi til Bretlands. Í bréfi sem Johnson sendi Macron daginn eftir þetta hörmulega slys leggur hann meðal annars til að allir ólöglegir innflytjendur sem fara þessa leið til Bretlands verði sendir rakleiðis aftur til Frakklands.

Þetta fyrirkomulag, skrifar Johnson, myndi „draga verulega úr - og jafnvel stöðva alveg - ferðirnar yfir sundið, og bjarga þannig þúsundum mannsílfa með því að kippa stoðunum undan viðskiptamódeli glæpagengjanna“ sem standa að hinum ólöglegu fólksflutingum milli landanna. Vill Johnson að þetta fyrirkomulag verði tekið upp þegar í stað. Og Johnson lét ekki nægja að senda Macron þetta erindi heldur birti það opinberlega, meðal annars á Twitter.

Macron segist hissa á Bretum

Aðspurður um efni bréfsins sagðist Macron hissa á því, hvernig Bretar tækju á vandanum. „Það kemur mér á óvart þegar ekki er tekið á málum af alvöru; samskipti þjóðarleiðtoga eiga ekki að fara fram í gegnum tíst á Twitter eða opin bréf, við erum engir uppljóstrarar,“ sagði forsetinn á sameiginlegum fréttamannafundi þeirra Marios Draghi, forsætisráðherra Ítalíu.

Afturkallar boð til Patel á krísufund innanríkisráðherra

Eftir mannskætt slysið á miðvikudag ákváðu Frakkar að boða til krísufundar innanríkisráðherra þeirra Evrópulanda sem flóttamannastraumurinn yfir Ermarsundið snertir mest; Frakklands, Bretlands, Hollands, Belgíu og Þýskalands. Gérald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, sendi kollegum sínum í þessum löndum boð á fundinn.

Í gær afturkallað hann boðið til Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands. Í bréfi sem hann sendi Patel sagði Darmanin að bréf Johnsons til Macrons hafi valdið Frökkum vonbrigðum. Birting bréfsins á samfélagsmiðlum hefði svo gert illt verra. „Ég verð því að aflýsa fyrirhuguðum fundi okkar í Calais á sunnudag," skrifar franski innanríkisráðherrann, sem mun engu að síður funda á sunnudag með kollegum sínum frá Hollandi, Belgíu og Þýskalandi.