Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lögreglumenn vildu knésetja vefsíðu barnabókahöfunda

27.11.2021 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: Hallgrímur Indriðason - RÚV
Áfrýjunarnefnd neytendamála hefur staðfest ákvörðun Neytendastofu um aðhafast ekkert vegna kvörtunar frá Íþróttasambandi lögreglumanna yfir vefsíðunni ferdafelaginn.is sem var ætlað að kynna barnabókina Komdu út! eftir þær Kristínu Evu Þórhallsdóttur og Brynhildi Björnsdóttur. Lögreglumennirnir vildu að höfundunum yrði bannað að nota lénið þar sem íþróttasamband þeirra hefði gefið út tímariti undir sama nafni frá árinu 1984.

Fram kemur í kvörtun Íþróttasambands lögreglumanna að tilgangur félagsins sé að stuðla að eflingu íþrótta meðal lögreglumanna og bæta aðstöðu þeirra til íþróttaiðkana. Félagið kemur einnig fram erlendis fyrir hönd íslenskra lögreglumanna.

Frá árinu 1984 hefur það gefið út tímaritið Ferðafélaginn sem er ætlað að stuðla að góðum og jákvæðum samskiptum lögreglumanna við almenning og miðla af reynslu lögreglumanna til að fækka umferðarslysum.  Tímaritið er jafnframt fjáröflunarleið fyrir íþróttasambandið í gegnum sölu auglýsinga og styrktarlína. 

Í kvörtuninni segir að þegar íþróttasambandið ætlaði að setja upp vefsíðu með sama nafni og tímaritið til að auka enn frekar á auglýsingasölu kom í ljós að barnabókahöfundarnir Kristín Eva Þórhallsdóttir og Brynhildur Björnsdóttir höfðu þegar skráð umrætt lén fyrir bók sína Komdu út!.

Lögmaður íþróttasambandsins sendi í framhaldinu bréf til Kristínar Evu þar sem þess var krafist að hún afsalaði sér léninu en því erindi var ekki svarað. 

Í kvörtun frá lögmanni Íþróttasambands lögreglumanna voru barnabókahöfundarnir sagðir hafa nýtt sér jákvætt orðspor tímarits sambandsins til að auka sölu á bókinni sinni. Og að þeir hefðu ekki getað verið í góðri trú þegar þeir skráðu lénið enda hefði tímaritið komið út árlega síðastliðin 36 ár.

Neytendastofa taldi málið ekki vera brýnt og ákvað því aðhafast ekki frekar. Íþróttasambandið lét ekki þar við sitja og skaut málinu til áfrýjunarnefndar neytendamála. Sem komst að sömu niðurstöðu; að Neytendastofa hefði verið í fullum rétti að gera ekki neitt enda yrði stofnunin að skoða kvartanir með hliðsjón af því hversu brýnt erindið væri fyrir neytendur almennt eða heildarhagsmuni neytenda.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV