Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafa þurft að fresta sömu hjartaaðgerðinni fimm sinnum

27.11.2021 - 19:38
Mynd: Þór Ægisson / Skjáskot
Tómas Guðbjartsson, yfirlæknir á skurðsviði Landspítala, segir að um helmingi þeirra hjartaaðgerða, sem gera átti á Landspítala undanfarna tvo mánuði, hafi verið frestað vegna plássleysis á gjörgæslu. Dæmi eru um að aðgerð hafi verið frestað fimm sinnum á spítalanum.

Í venjulegu ástandi eru gerðar fjórar til fimm hjartaaðgerðir á Landspítala á viku og þar af er ein bráðaaðgerð sem er gerð að kvöldi, nóttu eða helgi. Tvær eru „hálfbráða“ aðgerðir, gerðar á fólki sem þegar liggur inni á spítalanum og tvær eru gerðar á fólki sem er á biðlista. Vegna kórónuveirufaraldursins eru færri pláss á gjörgæsludeild og því fækkar aðgerðum.

„Þetta er bara skelfileg statistík. Núna síðustu mánuði erum við búin að fresta 15 aðgerðum út af covid og það er um helmingur aðgerða. Það koma einstaka vikur þar sem við hrökkvum í gang en langflestar vikur er þetta ein eða tvær aðgerðir - jafnvel engar í tvær vikur. Það sjá allir að þetta er ekki hægt. Við getum ekki flogið með þessa sjúklinga til útlanda - þeir eru of veikir fyrir það.“

Frestað í þriðja, fjórða og fimmta skipti

Og aðgerðum sumra er frestað oft. „Því miður. Það er bara eitthvað sem ég hef ekki séð áður, nema í afskaplega fá skipti á þeim 17 árum sem ég hef unnið hér á Landspítala. Það hefur gerst ítrekað síðustu tvo mánuði að við þurfum að fresta sjúklingum í þriðja, fjórða skipti - jafnvel fimmta skipti,“ segir Tómas.

„Þú ert að fara í undirbúning kvöldið áður, þú ert að fara í sturtu - fá næringardrykki. Þú ert vakinn og ert á leiðinni inn í aðgerð og þá er komið inn til þín og sagt: nei, því miður þessi aðgerð getur ekki orðið.“

Tómas segir að í mörgum tilvikum sé sjúklingunum gefin róandi lyf. „Vegna þess að þetta er afar óæskilegt fyrir hjartasjúklinga að verða fyrir svona andlegu áreiti, myndi ég kalla þetta.Þetta eru sjúklingar sem eru mjög veikir og við megum ekki gleyma því að hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin á Íslandi.“

Erum í meiri vandræðum en aðrir vegna smæðar

Tómas hefur um skeið viðrað hugmyndir um að neyðarstjórn verði sett yfir Landspítala. Þá megi líta til þess að Svíar greiði gjörgæsluhjúkrunarfræðingum tvöföld laun vegna álags. „Og ég held að slíkar lausnir séu eitthvað sem við horfum fram á.“

Sjá einnig: Vill setja neyðarstjórn yfir Landspítala 

Veistu til þess að slíkar lausnir hafi verið ræddar? „Ég geri ráð fyrir að þær hafi verið ræddar vegna þess að þetta er aðferðafræði sem nágrannaþjóðirnar eru að gera. Allir eru í sömu vandræðum, við erum bara í meiri vandræðum vegna þess að við erum lítið land. Ef þetta heldur svona áfram þarf ekki lækni til að sjá að sjúklingur á eftir að látast í bið eftir aðgerð. Ætlum við að láta það gerast? Ég er ekki til í það.“