Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ég held við höfum aldrei verið betri“

Mynd: Kristinn Arason / Fimleikasamband Íslands

„Ég held við höfum aldrei verið betri“

27.11.2021 - 15:48
Íslenska kvennaliðið sem tekur þátt í EM í hópfimleikum í næstu viku stefnir á gullið. „Það er markmiðið, við ætlum ekkert að fela það þó við séum ekkert að flagga því heldur,“ segir Andrea Sif Pétursdóttir fyrirliði kvennaliðsins.

Ísland hefur tvisvar orðið Evrópumeistari í fullorðinsflokki kvenna síðast árið 2012. Síðustu þrjú Evrópumót hafa Svíar hirt gullið naumlega og Ísland fengið silfur. „Það er alveg kominn tími á að snúa þessu við. Við höfum kannski ekki allt að segja um það þar sem dómararnir dæma eftir því sem þeim finnst. Við höfum verið smá ósáttar síðustu ár, því okkur finnst við hafa átt að vinna eitthvað en það verður bara að koma í ljós,“ segir Andrea Sif.

Upphaflega átti mótið að fara fram í fyrra en af augljósum ástæðum var því frestað. Andrea segir það þó ekki hafa haft mikil ahrif a liðið sem er yngra en oft áður, þrátt fyrir að margir reynsluboltar séu þar innanborðs. „Við vorum byrjaðar að æfa fyrir 2020 svo var byrjað upp á nýtt af því að fólk var að hætta út af Covid og þjálfarar farnir að gera aðra hluti. Svo við byrjuðum bara upp á nýtt og hópurinn er bara mjög góður. Við tölum mikið um það hvað andrúmsloftið er gott í þessum hóp. Við erum svolítið samstilltar að eðlisfari,“ segir Andrea.

Þá sé ekkert annað á stefnuskránni en að taka gullið. „Það er markmiðið og við ætlum ekkert að fela það þó við séum ekkert að flagga því heldur. Við erum búnar að æfa mjög vel og það eru alveg meiðsli og álag en ég held við höfum aldrei verið betri samt,“ segir Andrea Sif.

„Ætlum að sýna þessum þjóðum að við erum lítil þjóð en með mjög góða fimleikastráka

Auk kvennaliðs fullorðinna mun Ísland eiga lið í unglingakeppni kvenna og blandaðra liða og þá mun karlalið keppa fyrir hönd Íslands í fyrsta sinn í tíu ár. „Markmiðið okkar er að lenda alla vega í öðru sæti. Það eru mjög sterk lið að keppa þarna. Við ætlum að sýna þessum þjóðum að við erum lítil þjóð með mjög góða fimleikastráka,“ Adam Bæhrenz Björgvinsson fyrirliði karlaliðsins.

Síðustu dagarnir fyrir keppni fari í andlegan undirbúning. „Að koma saman og vera ekkert of mikið að stressa sig á þessu. Við erum búnir að vera vinna fyrir þessu í marga mánuði og við ætlum bara að treysta ferlinu og gera þetta vel,“ segir hann.

„Það er greinilegt að karlafimleikar eru í uppsveiflu núna og við strákarnir vonum að það haldi áfram og við náum að senda karlalið út á EM í hvert einasta skipti. Við höfum reynt að sýna strákum á Íslandi að fimleikar eru kúl, og erum því búnir að breyta svolítið ímynd strákafimleika. Við fórum hringinn í kringum landið og vorum með sýningar síðustu tvö ár og það var bara geggjað,“ segir Adam að lokum.

Viðtölin má sjá í heild í spilaranum hér að ofan.