Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þingflokkar funda á morgun ― þingmenn orðnir spenntir

26.11.2021 - 12:43
Willum Þór  Þórsson. Birgir Ármannsson. Steinunn Þóra Árnadóttir
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Þingflokkar stjórnarflokkanna þriggja verða líklega ekki boðaðir til fundar vegna ríkisstjórnarmyndunar fyrr en á morgun og þingmenn bíða forvitnir og spenntir eftir niðurstöðunni. Hvorki var ríkisstjórnarfundur né þingfundur í dag.

Steinunn Þóra Árnadóttir sitjandi formaður þingflokks VG segir í samtali við fréttastofu að enn sem komið er hafi ekki verið tilefni til að kalla þingflokkinn saman en boðað verði til fundar um leið og línur fari að skýrast.

Í sama streng tekur Birgir Ármannsson sitjandi þingflokksformaður. „Það eru allir í sjálfu sér í startholunum en það hefur hins vegar ekki verið ákveðinn einhver fundartími í dag eða á morgun eða neitt neglt niður í þeim efnum.“

Eruð þið ekki orðin forvitin? „Jú, að sjálfsögðu.“

Veist þú hversu mörg ráðherraembætti Sjálfstæðisflokkurinn fær? „Nei.“ Hverjir koma til greina sem ráðherrar? „Nei. Það hefur ekki verið rætt eða afgreitt með neinum hætti.“
Nú hefur þitt nafn verið nefnt í embætti forseta Alþingis - hefur það verið rætt við þig? „Það eru engar ákvarðanir sem hafa verið teknar um það.“ Myndirðu þiggja það? „Ég hef ekki vikist undan verkefnum.“

Fyrr í vikunni sögðu formenn ríkisstjórnarflokkanna að það væri einungis dagaspursmál hvenær ný ríkisstjórn yrði kynnt. Verði svo, þá var líklega síðasti fundur fráfarandi ríkisstjórnar síðasta þriðjudag, en enginn ríkisstjórnarfundur er á dagskrá í dag.

Willum Þór Þórsson sitjandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins býst við að þingflokkurinn verði ekki kallaður saman fyrr en á morgun og þá sitt hvorum megin við fund miðstjórnar flokksins sem þarf að samþykkja stjórnarsáttmálann.

„Ég reikna nú með að formennirnir þurfi tímann í dag til þess að undirbúa stjórnarsáttmálann.  Það eru allir mjög spenntir,“ segir Willum Þór.

Veistu hverjir koma til greina sem ráðherrar? „Ég myndi giska á okkur oddvitana og við eigum þrjá ráðherra sem voru öflugir á liðnu kjörtímabili og ef við fáum einn til viðbótar þá erum við með margt gott fólk sem gæti klárað það verkefni.“
Þitt nafn hefur verið nefnt í ráðherraembætti - myndir þú þiggja það? „Já, ég myndi gera það.“ Hefur það verið rætt við þig? „Nei.“

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir