Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Ólíklegra að hópsmit verði á LSH vegna bólusetninga

Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Smit hafa greinst bæði á geðdeildinni á Kleppi og á bráðaöldrunarlækningadeild Landspítala síðan í gær. Hildur Helgadóttir, verkefnisstjóri farsóttarnefndar segir að strangar sóttvarnarreglur og góð þátttaka í bólusetningum hefti útbreiðslu smita innan spítalans.

Nú hefur starfsfólk beggja deilda sem varð útsett fyrir smiti verið skipað í vinnusóttkví og það fer í þrjár sýnatökur í vikunni.

Niðurstöður úr sýnatökum sjúklinga í dag

Sjúklingar hafa einnig verið skimaðir og von er á niðurstöðum úr þeim sýnatökum eftir hádegi. Á bráðaöldrunarlækningadeild deila sjúklingar herbergjum og salernisaðstöðu, en Hildur segir þau binda vonir við að sóttvarnaráðstafanir á spítalanum og bólusetningar komi í veg fyrir hópsmit.

Nánast allir búnir að fá örvunarskammt

„Þarna eru nánast allir bólusettir og flestir búnir að fá örvunarskammt, bæði sjúklingar og starfsfólk. Það auðvitað breytir þessari mynd mjög mikið. Við erum kannski ekki alveg eins áhyggjufull eins og að ef þetta væri allt saman óbólusett fólk,“ segir Hildur.

Þá segir hún að ráðstafanir á spítalanum hafi gefið góða raun og í langflestum tilfellum komi þær í veg fyrir hópsmit.

„Þessar ráðstafanir okkar um grímuskyldu og persónulegar sóttvarnir hafa virkað mjög vel.“ 

Deila sjúklingar á þessum deildum herbergjum eða salernisaðstöðu?

„Já, við erum auðvitað að eiga við þetta húsnæði sem komið er til ára sinna. En á móti kemur að það eru hérna mjög svona strangar reglur um þrif og þar á meðal þrif á snertiflötum,“ segir Hildur.