Jákvæð tíðindi í fjölgun tilkynntra kynferðisbrota

25.11.2021 - 16:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti Gunnarsson - RÚV
Fjöldi kynferðisbrota sem er tilkynntur til lögreglu hefur aukist síðustu árin. 560 brot hafa verið tilkynnt það sem af er ári.

Tilkynningum fjölgar

Þetta kemur fram í tölfræði sem ríkislögreglustjóri sendi frá sér í dag. Þar segir að tilkynntum nauðgunum fari almennt fjölgandi ár frá ári og hafa tilkynnt brot verið fleiri en 180 á fyrstu tíu mánuðum ársins allt frá árinu 2017, að undanskildu árinu 2020. 

Það ár fækkaði nauðgunum nokkuð. 161 tilkynning barst en að meðaltali höfðu tilkynningar verið 235 á ári þrjú árin á undan.

Brotum fjölgar ekki endilega

Rannveig Þórisdóttir, sviðsstjóri þjónustusviðs ríkislögreglustjóra, segist túlka tölurnar sem jákvæð tíðindi. „Við sjáum ekki endilega merki um það að brotum sé að fjölga í samfélaginu þegar við skoðum til dæmis þolendakannanir heldur að þetta sé vísbending um að fleiri séu að tilkynna til lögreglu og leita réttar síns.“

Tilkynntum kynferðisbrotum gegn börnum fer sömuleiðis fjölgandi og segir Rannveig að aukinn fjöldi tilkynninga um stafræn brot útskýri þá aukningu að einhverju leyti.

Covid skýrir fækkun

Hvað varðar fækkun tilkynninga í fyrra virðist heimsfaraldur hluti ástæðunnar.

„Það voru meiri lokanir á skemmtistöðum í fyrra og við sjáum vísbendingar um að fækkun nauðgana tengist því að einhverju leyti. Einnig sjáum við vísbendingar um að blygðunarsemis- og áreitnismálum, sem tengjast gjarnan skemmtanalífinu, hafi fækkað jafnframt á þeim tíma sem lokanir voru meiri,“ segir Rannveig.

Þórgnýr Einar Albertsson