Engar málamiðlanir um Taívan í boði

25.11.2021 - 11:06
epa000250284 Fighter jets of Taiwan air-force at an air-show at the Taoyuan airbase in northern Taiwan, Saturday,14 August 2004. Taiwan President Chen Shui-bian said Saturday thatTaiwan and other Pacific countries must face up to what he calledChina?s plot to swallow Taiwan.   "China?s military spending has shown a two-digit growth every year, and China has deployed missiles targeting Taiwan. China also attempts to boost its capability to counter the U.S. and Japan?s ability to interfere in Taiwan-China war," Chen told the second Democratic Pacific Assembly in Taipei.  EPA/Eddie Cheng
Herþotur á flugsýningu á Taívan. Mynd: EPA
Bandaríkjastjórn þarf að átta sig á því að það er ekki hægt að gera málamiðlanir í málefnum Taívans. Þetta sagði upplýsingafulltrúi kínverska varnarmálaráðuneytisins í morgun.

Vinskapur veldur vandræðum

Stjórnvöld á meginlandi Kína gera tilkall til eyjunnar. Taívan hefur sjálfstjórn en flest ríki viðurkenna þó einungis sjálfstæði Alþýðulýðveldisins á meginlandinu.

Bandaríkin viðurkenna ekki sjálfstæði Taívans en eru einn mikilvægasti bakhjarl stjórnvalda á eyjunni og sjá þeim fyrir vopnum. Þessi vinskapur hefur valdið sífellt meiri deilum á milli Bandaríkjanna, Taívans og Kína síðustu vikur og mánuði. Hafa Kínverjar haldið fleiri og fleiri heræfingar á Taívanssundi og ítrekað flogið inn á taívanskt loftvarnarsvæði.

Þótt Xi Jinping, forseti Kína, og Joe Biden Bandaríkjaforseti hafi sammælst um það á fundi sínum fyrr í mánuðinum að leyfa deilum og samkeppni ríkjanna ekki að verða að átökum var ljóst að þeir voru langt frá því að vera sammála um stöðu Taívans. Sagði Xi að bandarískir stuðningsmenn taívanskra stjórnvalda væru að leika sér að eldinum.

Óásættanlegt hjá Bandaríkjamönnum

Wu Qian, upplýsingafulltrúi kínverska varnarmálaráðuneytisins, sagði í morgun að Kínverjar muni aldrei miðla málum um Taívan og að Bandaríkjamenn þurfi að skilja það. „Um nokkurt skeið hafa Bandaríkin sagt og gert ýmislegt óásættanlegt í tengslum við Taívan, Suður-Kínahaf og hernaðareftirlit,“ sagði Wu.

Þessu þurfi Bandaríkjamenn að hætta til þess að hægt sé að bæta samskipti Bandaríkjanna og Kína og koma á stöðugum og heilbrigðum samskiptum.

Þórgnýr Einar Albertsson