Ætlaði að flýja frægðina en endaði í Áramótaskaupinu

Mynd með færslu
 Mynd: Linda Brownlee

Ætlaði að flýja frægðina en endaði í Áramótaskaupinu

25.11.2021 - 11:11

Höfundar

Þegar Damon Albarn kom fyrst til Íslands ætlaði hann að flýja frægðina en sú tilraun misheppnaðist þar sem Blur hafði einnig slegið í gegn á Íslandi. Í stað þess að falla í fjöldann endaði Albarn í Áramótaskaupinu nokkrum mánuðum eftir að hann kom fyrst til landsins.

Tónlistarmaðurinn Damon Albarn var gestur í hlaðvarpi breska sjónvarpsmannsins Alan Carr, en Carr heldur úti ferðahlaðvarpinu Life’s a Beach. Í þættinum fóru þeir yfir ferðalög Albarn í gegnum tíðina og Ísland og íslenskar matarhefðir komu mikið við sögu. 

Í þættinum sagði Albarn frá því að sem barn dreymdi hann oft að hann væri að fljúga yfir svartan sand. Hann tengdi drauminn ekki við neinn ákveðinn stað, aðeins að það væri víðátta af svörtum sandi. Hann var svo í tónleikaferðalagi með Blur í Bandaríkjunum þegar hann horfði á heimildaþátt um Ísland á National Geographic sjónvarpsstöðinni þegar sýndar voru yfirlitsmyndir af svörtum sandi svo langt sem augað eygði. Albarn hugsaði strax með sér að þetta væri land drauma sinna og hann yrði að komast til Íslands.

Hann lét svo drauminn rætast árið 1996. Blur var þá á hátindi frægðar sinnar í Bretlandi og Albarn taldi að hann gæti flúið frægðina á Íslandi þar sem enginn vissi hver hann var. „Í barnslegri einfeldni minni bókaði ég herbergi á Hótel Sögu, haldandi að það væri einhvers konar fornt víkingahús,” segir Albarn. Þegar hann mætti á hótelið áttaði hann sig á því að um ósköp venjulegt hótel væri að ræða og það sem meira er þá var það fullt af eldri borgurum sem komu til landsins með skemmtiferðaskipum. „Ég sá bara nafnið Saga, hugsaði bara um gömlu Íslendingasögurnar. Tengdi það við víkingana,” segir Albarn.

Þrátt fyrir misskilninginn naut Albarn þess að dvelja á Íslandi. Hann fór í langa göngutúra og reyndi að semja um það sem fyrir augu bar. Hann komst þó fljótlega af því að Britpop-senan hafði einnig náð til Íslands og innan skamms var hópur af krökkum fyrir utan hótelið að bíða eftir að hitta hann. 

Hann ílengdist á Íslandi og eignaðist fljótt marga vini, en áður en hann kom til Íslands þekkti hann bara einn Íslending, en það var Einar Örn Benediktsson. „Ég hafði átt klikkað kvöld með honum þegar Blur og Sykurmolarnir spiluðu í sömu götu í Boston og við duttum í það eftir tónleikana. Ég hringdi í hann og hann var til í að hitta mig, en þarna var hann nýhættur að drekka, var hættur öllum fyrri ávönum. Þannig að þarna var ég að leita að partý og hann nýkominn úr meðferð. En við náðum ótrúlega vel saman og ég skemmti mér konunglega á Íslandi,” segir Albarn.

Albarn segir að hann hafi náð að komast vel inn í íslenskt samfélag og til marks um það brá honum fyrir í Áramótaskaupinu árið 1996 þar sem gert var grín að kvennafari hans þar sem ungar konur voru að skíra börn sín í höfuðið á honum. „Ekki sögulega rétt en mjög fyndið engu að síður,” segir Damon.

Atriðið er sérstaklega fyndið í huga Albarn þar sem hann fór til Íslands til að flýja frægðina en endaði á að komast í stærsta sjónvarpsþátt landsins. „En þetta var frábært, Ísland er mjög rólegur staður og íbúarnir pæla lítið í frægðinni. Ég lenti aldrei í vandræðum og mér fór fljótlega að líða eins og heima hjá mér,” segir Albarn sem ákvað að byggja hús í Reykjavík árið 1999. 

Brennivínið nauðsynlegt með hákarlinum

Aðspurður segist hann hafa bragðað ýmsan undarlegan mat á Íslandi. Sérstaklega á þorranum, en á þorrablótum hafi hann smakkað selkjöt, sviðakjamma og hákarl. Þegar hann ræddi þorrablótin ætlaði Alan Carr þó varla að trúa lýsingunum á sviðakjömmum. „Þar þarf að plokka húðina af höfuðkúpunni. Þú færð kæstan hákarl. Mjög gott fyrir meltinguna en maður þarf að drekka brennivín með þessu. Mér finnst það mjög gott,” segir Albarn. 

Þorramatur Íslendinga toppar þó ekki undarlegasta mat sem hann hefur smakkað. „Ég held að ég hafi óvart borðað hundakjöt í Suður-Kóreu, og ég hef líka óvart borðað apakjöt í Nígeríu,” segir Albarn. „Ég hef borðað fullt af skrítnum mat. Það undarlegasta var á veitingastað í Kína sem sérhæfði sig í froskakjöti og mér var sagt að ég yrði að prófa þetta. Máltíðin byrjaði á því að þjónn mætti með plastskál fulla af lifandi froskum og sagði mér að velja einn frosk. Ég spurði hvort ég yrði að velja sjálfur og fór svo með einn putta ofan í skálina og valdi frosk. Þjónninn sótti hann og kastaði honum í jörðina til að rota hann,” segir Albarn sem segir nauðsynlegt að vera með opin hug á ferðalögum. „Mér hefur alltaf fundist að til að fá sem mest út úr ferðalögum þurfi maður að vera opinn fyrir öðrum siðum og ekki dæma annað fólk, þeirra menningu og þeirra siði,” segir Albarn.

Tengdar fréttir

Tónlist

Damon hefur horft á Esjuna í 20 ár en aldrei labbað upp

Stjórnmál

Damon Albarn og 29 aðrir fá ríkisborgararétt