Atvik eftir leikinn í N-Makedóníu ástæða starfslokanna

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Siggeirsson - RÚV

Atvik eftir leikinn í N-Makedóníu ástæða starfslokanna

24.11.2021 - 10:02
Starfslok Eiðs Smári Guðjohnsen, sem aðstoðarþjálfara karlalandsliðsins, eru sögð tengjast atviki eftir leikinn gegn Norður-Makedóníu fyrr í mánuðinum. Leikmenn og starfsmenn liðsins hafi þá haft áfengi um hönd. Eiður var áminntur af KSÍ síðastliðið sumar og fór í tímabundið leyfi eftir að myndskeið af honum í annarlegu ástandi fór í dreifingu.

Eiður Smári fór í tímabundið leyfi frá störfum hjá KSÍ í júní eftir að myndband af honum í annarlegu ástandi í miðbæ Reykjavíkur fór í dreifingu og hann mætti undir áhrifum áfengis í umræðuþátt í Sjónvarpi Símans. Þá sagði hann í tilkynningu að hann myndi sannarlega taka á sínum málum. Eiður fékk þá skriflega áminningu frá Knattspyrnusambandinu og var sendur í tímabundið leyfi. Í tilkynningu frá KSÍ sagði að sambandið lýsi yfir stuðmingi við Eið Smára og hans ákvörðun um að leita sér hjálpar.

KSÍ greindi frá því seint í gærkvöld að Eiður Smári væri hættur sem landsliðsþjálfari. Samkvæmt heimildum RÚV og annarra miðla tengist það áfengisneyslu aðstoðarlandsliðsþjálfarans eftir leik liðsins gegn Norður-Makedóníu fyrr í mánuðinum. Eftir atvikið hafi stjórn KSÍ tekið ákvörðun um að segja upp samningi KSÍ enda Eiður áður verið áminntur vegna óhóflegrar áfengisneyslu.

Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ, sagði í samtali við RÚV að ástæða þess að tilkynningin hafi verið send svona seint hafi verið sú að stjórn KSÍ hafi fundað fram eftir í gær og í kjölfarið hafi verið unnið að fréttatilkynningu sem hafi ekki verið tilbúin fyrr en upp undir miðnætti.

Ekki hefur náðst í Vöndu Sigurgeirsdóttur, formann KSÍ, í morgun né Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfara.

Tengdar fréttir

Íþróttir

Eiður Smári hættur sem aðstoðarlandsliðsþjálfari