Aðdáendur GTA keyptu köttinn í sekknum

Mynd með færslu
 Mynd: Rockstar Games

Aðdáendur GTA keyptu köttinn í sekknum

23.11.2021 - 13:21

Höfundar

Endurútgáfa af Grand Theft Auto þríleiknum hefur hvorki mætt væntingum aðdáenda né gagnrýnenda. Framleiðandi leikjanna hefur beðist afsökunar og lofar betrumbótum.

Leikirnir þrír, Grand Theft Auto III, San Andreas og Vice City, komu út í nýrri útgáfu á dögunum fyrir allar helstu leikjavélar. Leikirnir eru meðal þeirra áhrifamestu sem komið hafa út síðustu 25 ár og var eftirvænting margra fyrir spilun í uppfærðri útgáfu, með nýju yfirbragði og betri grafík, mikil.

Nýju útgáfurnar hafa hins vegar reynst hroðvirknislega unnar. Þær eru morandi í hinum ýmsum göllum, allt frá grafískum ágöllum yfir í alvarlegri brotalamir sem valda því að leikirnir slökkva á sér í miðri spilun. Hinar ýmsu breytingar sem hafa orðið á leikjunum, með það fyrir augum að nútímavæða og betrumbæta, hafa að auki reynst umdeildar og taldar þvert á móti gera leikina síðri en áður var.

Mynd með færslu
 Mynd: Rockstar Games

Útgefandinn, Rockstar Games, er þekktur fyrir að vanda til verka. Það var því ekki viðbúið að útgáfa leikjanna myndi reynast svo misheppnuð og óvönduð. Um helgina var gefin út formleg afsökunarbeiðni, þar sem útgefandinn harmaði ástand leikjanna, þeir hafi hvorki mætt þeirra eigin gæðakröfum né væntingum aðdáenda.

Til stendur að bæta upp fyrir þetta með uppfærslum á leikjunum. Sú fyrsta kom út um helgina, fljótlega eftir afsökunarbeiðnina, þar sem hinir ýmsu gallar voru lagfærðir. Rockstar Games hefur lofað fleiri uppfærslum, með von um „að leikirnir nái því gæðastigi sem þeir eiga skilið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Rockstar Games

Tengdar fréttir

Menningarefni

Krassandi háðsádeila kemur gljáfægð út af verkstæðinu