„Já, þetta er frábært lag!“

Mynd: RÚV / RÚV

„Já, þetta er frábært lag!“

21.11.2021 - 09:00

Höfundar

„Nú er ég mættur aftur,“ segir tónlistarmaðurinn og grínleikarinn Þórhallur Sigurðsson, eða Laddi. Eftir að hafa átt eitt vinsælasta jólalag Íslendinga í rúma þrjá áratugi, Snjókorn falla, hefur hann loksins gefið út nýtt lag fyrir hátíðarnar, Dingaling.

Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, gefur nú út nýtt jólalag í fyrsta sinn síðan hið sívinsæla lag Snjókorn falla kom út. Lagið heitir Dingaling og er samið af Ásgeiri Orra Ásgeirssyni en textann samdi Bragi Valdimar Skúlason.  

Fengu gæsahúð við fyrstu hlustun

„Ég sé það núna, ég hefði átt að gera miklu meira af þessu,“ segir Laddi í samtali við þau Hrafnhildi Halldórsdóttur og Andra Frey Viðarsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. „En nú er ég bara mættur aftur og það er eiginlega algjörlega óvart, má segja.“  

Laddi hafi fengið símtal fyrir nokkrum dögum síðan þar sem hann var spurður hvort hann væri ekki til í að syngja inn á nýtt jólalag. „Jájá, ef lagið er gott, ég þarf að fá að heyra það,“ hafi hann svarað. Lagið var ekki alveg tilbúið svo Laddi fékk sent lagið með hummi og einhverjum bulltexta. „Ég hlustaði og hugsaði, já þetta er bara frábært lag. Ég er til!“ Morguninn eftir hafi Laddi fengið þau skilaboð að lagið væri klárt og hann skyldi taka það upp þann daginn. „Svoleiðis var það,“ segir Laddi. 

Heildarútkomu lagsins fékk Laddi að heyra í fyrsta sinn síðasta fimmtudagskvöld, en lagið kom út á föstudaginn. „Ég verð bara að segja eins og er, við konan fengum bara gæsahúð þetta er svo fallegt.“ Skólakór Kársnesskóla syngur einnig inn á lagið og að sögn Ladda sé það alveg yndislegt að hlusta á.  

En verða einhverjar jólauppákomur? „Já, í næstu viku trúlega,“ segir Laddi en hann hefur verið beðinn um að mæta til Gísla Marteins næsta föstudag. „Við ætlum að gera það náttúrulega, þá verður hljómsveit og kór og allt saman. Heila klabbið.“  

Sjálfur er Laddi ekki byrjaður að hlusta á jólalögin enn en þau hjónin eigi það til að setja á jólastöðina annað slagið. „Konan er örlítið byrjuð að skreyta, það eru komin pínulítið jólatré úti um allt.“ 

Rætt var við Ladda í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.  

Tengdar fréttir

Tónlist

Glámur og Skrámur rifja upp grimm örlög súkkulaðikóngs

Myndlist

Hefur ekki tíma til að vera hefðbundið gamalmenni