Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Litakóðunarkerfi tekið upp í Færeyjum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Skjáskot - kvf.fo
Landstjórnin í Færeyjum hefur tekið upp svokallað umferðaljósakerfi í glímunni við kórónuveirufaraldurinn. Það er litakerfi þannig að stöðunni er skipt í rautt, gult og grænt allt eftir fjölda nýrra smita hverju sinni.

Kerfið tók gildi 13. nóvember en landstjórnin ákveður í samráði við smitsjúkdómanefnd hvenær beri að skipta á millli lita. Viðbrögð og takmarkanir ráðast af því, eru vægastar á grænu og þyngjast á gulu og rauðu.

Landsstjórnin kynnti sömuleiðis upptöku bólusetningarvottorðs eða covid-passa svipaðan þeim sem ýmis ríki Evrópu hafa tekið upp. Mjög skiptar skoðanir eru um það samkvæmt fréttum færeyska ríkisútvarpsins af málinu.

Upplýsingar um stöðuna verða aðgengilegar á vefsíðunni korona.fo. Nú er staðan gul með 50 manna samkomutakmörkun og kröfu um framvísun bólusetningarvottorðs á sjúkrahúsum og víðar þar sem margir koma saman. 

Einnig var ákveðið að taka upp skimunarskyldu að nýju við landamærin, aðeins þau sem sýnt geta fram á bólusetningu komast hjá henni. Þó er mælt með sýnatöku á öðrum degi eftir komuna til Færeyja. 

Nýjum tilfellum hefur fjölgað verulega undanfarinn rúman mánuð en 46% allra tilfella frá upphafi greindust í október. Nú eru virk smit 450, fimm liggja á sjúkrahúsi en enginn á gjörgæsludeild.

Dauðsföll af völdum COVID-19 í Færeyjum eru nú orðin tíu en voru aðeins tvö þar til 1. nóvember síðastliðinn. Alls hafa 86% Færeyinga fengið tvær bólusetningar og 8% þá þriðju.