Dansinn dunar á Vitatorgi

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Dansinn dunar á Vitatorgi

17.11.2021 - 07:50

Höfundar

„Við erum búin að dansa saman í sextíu ár," segja Emil Ragnar Hjartarson og Anna Jóhannsdóttir. „Hún hefur reyndar kennt mér allt sem ég kann," bætir Emil við. Emil og Anna eru meðal þeirra sem mæta á hverjum miðvikudegi á dansiball í samfélagshúsinu á Vitatorgi í Reykjavík.

Þar er glatt á hjalla, ekki bara á miðvikudögum því að alla virka daga er eitthvað um að vera.

„Þetta er samfélagshús sem er öllum opið, öllum í hverfinu og öllum í borginni, fólki á öllum aldri," segir Drífa Baldursdóttir verkefnastjóri. „Við erum með aðstöðu og kennslu fyrir þá sem vilja mála, binda inn bækur, mála postulín og fleira. Síðan erum við með vel búna smíðastofu. Eitt af því sem við gerum líka er að taka á móti nýjum fjölskyldum í hverfinu og hér hitta þær þá sem þær eru svo samskiptum við í skólum og leikskólum og þessháttar," segir Drífa.