Aukið ofbeldi íslenskra barna samræmist ekki rannsóknum

16.11.2021 - 09:47
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson/RÚV / Grímur Jón Sigurðsson/RÚV
Það samræmist ekki við niðurstöðum Rannsókna og greininga, að börn beiti meira ofbeldi nú en áður. Þau hafa lagt kannanir fyrir börn á grunnskólaaldri í 22 ár og Margrét Lilja Guðmundsdóttir sérfræðingur hjá stofnuninni segir íslensk börn almennt koma vel út.

Ótrúlega góður árangur

Margrét segir rannsóknir þeirra meðal barna upp í tíunda bekk hafi sýnt góðan árangur. Þá hafi neysla á öllum tegundum vímuefna dregist saman og þau hafa ekki greint aukningu á ofbeldi meðal barna.

„Við höfum séð ótrúlega góðan árangur. Það er ekki þannig að hér úti á götu séu börn með vopn í töskum að berja hvort annað“ segir Margrét.

„Það vex sem við veitum athygli“

Margrét segir fjölmiðlar þurfi að vanda umfjöllun um málaflokkinn, því gjarnan vaxi það sem veitt er athygli. Hún segist ekki efast um heilindi þeirra sem nýlega hafi greint frá aukningu, en bendir á að lögreglan til dæmis sjái nær eingöngu dekkri hliðar mannlífsins.

„Við höfum gjarnan séð það, að þegar við birtum niðurstöður sem að birta flotta mynd af krökkum, nær það ekki alveg í gegn“ segir Margrét. „Við sem lesendur fjölmiðla smellum líka frekar á fréttir sem eru með neikvæðum formerkjum.“

„Samfélagsmiðlarnir eru vissulega partur af þessu, það er alveg klárt. Og það sem við höfum líka verið að benda á í okkur rannsóknum er að það er allt of stór hópur barna sem hefur ekki aldur til að vera á miðlunum sem er þar“ segir Margrét.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Margréti úr morgunútvarpinu á Rás 2 í spilaranum hér að ofan.