Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Flutningsverð ógnar loðnutekjum

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ekki er víst að mikil loðnuveiði framundan skili þeim tekjum sem vænst hefur verið. Óttast er að kostnaður við gámaflutninga sé orðinn svo mikill að neytendur í Asíu vilji ekki greiða loðnuhrognin svo dýru verði. Framkvæmdastjóri flutningsfyrirtækis segir að vonandi fáist svo gott verð fyrir loðnuna á Asíumarkaði að það vegi upp hækkunina. 

Frá því faraldurinn braust út hefur verið flutt tuttugu til þrjátíu prósentum meira af vörum milli landa, einkum frá Asíu og Bandaríkjanum. En gámar hafa ekki legið á lausu. 

„Þetta hefur haft verulegar tafir bæði í höfnum, í áframflutningum og í að fá pláss í skipum. Það er eiginlega neyðarástand á sumum svæðum, eins og til dæmis í Los Angeles þar sem daglega eru 60 skip fyrir utan höfnina sem bíða eftir að komast að, í allt að 14 daga,“ segir Valdimar Óskarsson, framkvæmdastjóri DB Schenker Íslandi.

Verð á gámum hefur hækkað mjög og er nú í hæstu hæðum. Viðbúið er að þetta vari fram á næsta ár. Ástæðurnar eru að skip til gámaflutninga eru ekki nógu mörg, gámar of fáir og faraldurinn hefur dregið úr framleiðni og haft neikvæð áhrif á áætlanir skipa. Þá hefur útganga Breta úr Evrópusambandinu haft neikvæð áhrif á framleiðni og viðskipti. 

Gámaskorturinn og verðhækkun á gámum hefur mest áhrif á vöruflutninga til og frá Asíu. Asíumarkaður hefur verið verðmætasti markaðurinn fyrir loðnuhrogn. 

„Við erum að fara í mjög stóra loðnuvertíð og það verður vissulega slegist um gáma og pláss er af skornum skammti,“ segir Valdimar.

Það verði erfiðara en oft áður að flytja loðnuna út. 

Heldurðu að það geti haft áhrif á verðið á henni á mörkuðum?

„Flutningsgjaldið er talsvert hærra en það hefur verið síðustu árin. Það er ekki endalaust sem neytandinn á endastöð er tilbúinn að taka við. En við verðum að sjá til. Við vonumst til að gott verð fáist svo varan þoli þann flutningskostnað sem er í boði í dag,“ segir Valdimar.

Verðhækkun á gámaflutningi til Asíu er þrjátíu til fjörutíu prósent. Vöruflutningar frá Asíu til Evrópu og Bandaríkjanna hafa hækkað meira.

„Hækkun síðustu 24 mánaða er 1177%. Þetta eru gígantískar tölur,“ segir Valdimar.

 

Rætt var um áhrif hækkandi flutningskostnaðar og hækkandi innkaupaverða á fundi á vegum Félags atvinnurekenda í dag.

Fréttin hefur verið uppfærð