Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vestmannaey komin til hafnar og enginn eldur um borð

28.10.2021 - 03:54
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ísfisktogarinn Vestmannaey VE lagðist að bryggju í Neskaupstað um klukkan þrjú í nótt, ellefu klukkustundum eftir að eldur kom upp í vélarrúmi skipsins á hafi úti. Allur eldur er slökknaður og allir skipverjar heilir á húfi.

Þegar eldurinn kom upp um klukkan 16 í gær freistuðu skipverjar þess að slökkva hann en lokuðu vélarrúminu kirfilega þegar það tókst ekki. Bergey VE, systurskip Vestmanneyjar sem var á veiðum á svipuðum slóðum, kom þá til bjargar og dró togarann í örugga höfn í Neskaupstað.

Þar fór áhöfnin frá borði, að skipstjóranum undanskildum, en slökkviliðsmenn úr slökkviliði Fjarðabyggðar gengu um borð í þeirra stað til að kanna aðstæður.

Rúnar Snær Reynisson, fréttamaður RÚV, hefur eftir slökkviliðsmanni að sáralítill reykur hafi mætt slökkviliðsmönnum þegar þeir opnuðu vélarrúmið og enginn eldur brann þar lengur. Svo virðist sem slökkvikerfi skipsins hafi ráðið niðurlögum eldsins, sem aldrei náði að teygja sig út fyrir vélarrúmið. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV