Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Toppliðið áfram á sigurbraut

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Toppliðið áfram á sigurbraut

28.10.2021 - 20:12
Fram vann sinn fimmta leik í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Liðið lagði stigalaust lið Aftureldingar en þurfti að hafa verulega fyrir hlutunum.

Afturelding sýndi mikinn baráttuhug gegn Fram í kvöld. Toppliðið náði ekki að hrista botnliðið af sér fyrr en eftir 50 mínútna leik. Þremur mörkum munaði í leikhléi, 14-11 fyrir Fram, en lengst af seinni hálfleik munaði 1-2 mörkum. Jafnt var þegar 9 mínútur lifðu leiks en þá loks náði Fram að hrista af sér Aftureldingu. Fram skoraði sjö mörk gegn þremur á endasprettinum og vann með 29 mörkum gegn 25.

Ragnheiður Júlíusdóttir og Emma Olsson skoruðu 7 mörk hvor fyrir Fram en hjá Aftureldingu var Katrín Helga Davíðsdóttir atkvæðamest með 9 mörk.

Fram er í efsta sæti deildarinnar með 11 stig eftir sex leiki, hefur unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli. Afturelding er á botninum án stiga eftir sex leiki.