Tilgangslaust að herða aðgerðir án samstöðu

Mynd: RÚV / RÚV
Sóttvarnalæknir segir tilgangslaust að leggja til hertar aðgerðir vegna fjölgunar kórónuveirusmita nema samstaða sé um það. Prófessor í félagsfræði segir að smittölur hafi lítil áhrif á hvort fólk fari eftir sóttvarnatilmælum, tiltrú fólks á áhrif aðgerða hafi dvínað mjög. Vegfarendur sem fréttastofa tók tali í dag voru á því þeir myndu sætta sig við hertar sóttvarnaaðgerðir, væri þörf á þeim. Þeir myndu þó ekki fagna slíkum aðgerðum.

Smittölurnar hækka dag frá degi. Í gær greindust 96 innanlandssmit og slíkar smittölur sáust síðast fyrir rúmum tveimur mánuðum. Helmingur var í sóttkví. Það sem af er þessum mánuði hafa greinst 1.455 smit, þar af 584 undanfarna viku.

„Við höfum séð það margoft að um leið og afléttingar eru viðhafðar þá fer bylgjan upp aftur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Muntu skila heilbrigðisráðherra minnisblaði í dag? „Nei ekki í dag.“

Kúrfan virðist bara stefna eina leið og það er upp - er hægt að bíða lengi? „Nei, ég hef sagt það áður að því fyrr sem gripið er til aðgerða, því betri árangri náum við. En við þurfum að ná samstöðu um það, það hefur engan tilgang að vera með tillögur um harðar aðgerðir ef það er engin samstaða um það.“

Finnst þér líklegt að svo verði ef þú leggur til hertar aðgerðir? „Ég veit það ekki.“

Jón Gunnar Bernburg prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands hefur rannsakað hegðun fólks í faraldrinum á grundvelli gagna sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands safnar saman. Meðal þess sem hefur komið í ljós er að smittölur hafa lítil áhrif á hegðun fólks og eftir því sem samkomutakmarkanir eru harðari, þeim mun líklegra er að fólk fólk fylgi tilmælum.  

„Trendið hefur verið að eftir því sem hefur liðið á faraldurinn þá hefur dregið úr hlýðni og áhyggjum fólks af faraldrinum. Og ef það er þannig að þeim mun minni sem samkomutakmarkanir eru - þeim mun minna hlýðir fólk - þá getum við ætlað það að í dag sé fólk mjög lítið meðvitað um að hlýða einhverjum sóttvarnareglum.“

Ef fólk trúir að aðgerðirnar skili árangri, þá er það líklegra til að fylgja þeim.  „Þessi trú hefur verið að minnka mjög verulega á þessu ári,“ segir Jón Gunnar.

En það sem virðist hafa mest áhrif á hvort fólk fer eftir tilmælum um sóttvarnir er hvernig annað fólk hagar sér. „Ef þú telur að aðrir séu að fylgja sóttvarnatilmælum þá ert þú miklu líklegri til að gera það sjálfur. Og þessi skynjun - að aðrir séu að fylgja sóttvarnatilmælum - hún hefur veikst verulega.“