Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Illa gengur að fá fólk til að fara að reglum

28.10.2021 - 15:38
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sóttvarnalæknir biðlar til almennings að gæta sín, forðast fjölmenni og nota grímur þar sem ekki er unnt að viðhafa eins metra regluna. Illa hafi gengið að fá fólk til þess að fara eftir þeim reglum sem settar hafa verið um sóttvarnir. 

„Við höfum séð það margoft um leið og það eru afléttingar þá fer bylgjan upp aftur. Ég hafði lagt það til í mínum langtimaspá að við myndum alltaf hafa einhverjar takmarkanir í gangi til þess að reyna að halda þessu í því horfi sem við viljum hafa það. Það er greinilega mjög erfitt að framfylgja því. Ég held að ég komi með ákall til almennings um að biðja fólk virkilega um að passa sig núna. Það vita allir hvað þarf að gera: forðast fjölmenni, sérstaklega þar sem fólk þekkist ekki. Og nota grímur í aðstæðum þar sem fólk getur ekki viðhaft eins metra reglu. Og bara fara mjög varlega. Það vita allir hvað það er,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. 

Hann segir að það sé almenningur sem eigi erfitt með að fara eftir reglum sem eru í gildi um sóttvarnir og samkomutakmarkanir.

„Auðvitað eru mjög margir sem passa sig mjög vel en það eru líka mjög margir sem slaka á jafnvel miklu meira en reglur segja til um. Ég held að það sé það sem við erum að súpa seyðið af núna,“ segir Þórólfur.