Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hvetur fólk til að mæta ekki veikt til vinnu

28.10.2021 - 19:34
Friðrik Jónsson, formaður BHM. - Mynd: RÚV / RÚV
Mikilvægt er að fólk nýti veikindarétt sinn í faraldrinum og sé heima finni það fyrir veikindaeinkennum, að mati Friðriks Jónssonar, formanns Bandalags háskólamanna. „Við eigum veikindarétt, bæði fyrir okkur sjálf og fyrir börnin okkar. Verum heima, ekki vera að mæta til vinnu veik eða með veikindaeinkenni, og til að kjarna þetta; hóstum heima og nýtum okkur réttinn,“ sagði formaðurinn í viðtali í sjónvarpfréttum.

Sé fólk í vafa um hver réttur þess er varðandi veikindi, segir Friðrik mikilvægt að hafa samband við stéttafélag. Hann kveðst reglulega heyra dæmi um að fólk fari veikt í vinnuna. Fyrir tíu dögum síðan hafi verið sent bréf til fjármálaráðuneytis á vegum nokkurra stéttafélaga þar sem kallað var eftir því að réttur til veikinda í sóttkví yrði skýrður betur. 

Þá segir Friðrik það ekki hjálpa þegar atvinnurekendur dragi í efa rétt fólks til veikinda. Atvinnurekendur þurfi að sýna sveigjanleika í faraldrinum varðandi réttindamál. „Vegna þess að við vitum hvað það kostar þegar allt fer í stopp.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir