Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hörð mótmæli og refsiaðgerðir vegna valdaráns í Súdan

28.10.2021 - 04:24
Erlent · Afríka · Súdan · Stjórnmál
epa09546561 Sudanese protester chant near burning tires during a demonstration in the capital Khartoum, Sudan, 26 October 2021. Protests continued in Sudan on 26 October a day after Sudan's military launched a coup attempt and arrested the Prime Minister Abdalla Hamdok and other senior ministers and civilian members of the Transitional Sovereignty Council during early morning raids. According the reports seven people were killed and 140 were injured at the country.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aukin harka hefur færst í fjölmenn mótmæli súdanskra borgara vegna valdaráns hersins og harka Súdanshers gegn mótmælendum hefur vaxið að sama skapi. Alþjóðasamfélagið hefur líka brugðist hart við valdaráninu, skrúfað fyrir fjárhagsaðstoð og slitið samstarfi við landið.

Þúsundir Súdana hafa mótmælt valdaráninu á degi hverjum síðan á mánudag og ítrekað hefur slegið í brýnu milli mótmælenda og öryggissveita hersins, sem beita öllu í senn táragasi, bareflum og skotvopnum. Mannfall hefur þegar orðið í röðum mótmælenda en upplýsingar um fjölda látinna liggja ekki á lausu.

Verkföll, fordæmingar og refsiaðgerðir

Starfsfólk súdanska seðlabankans, ríkisolíufélagsins og fleiri stórfyrirtækja og stofnana hefur lagt niður vinnu í mótmælaskyni, rétt eins og læknar, flugmenn og fleiri starfsstéttir, auk þess sem fjölmargir sendiherrar landsins hafa afneitað herforingjastjórninni. Herforingjastjórnin brást við þessu síðastnefnda með því að svipta sendiherrana stöðu sinni.

Alþjóðabankinn, Sameinuðu þjóðirnar, Bandaríkin og Evrópusambandið hafa stöðvað allar greiðslur til Súdans vegna valdaránsins og Afríkusambandið vísað landinu úr sínum röðum af sömu sökum.