Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fyrsta tap Vals - Stjarnan eina ósigraða liðið

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Fyrsta tap Vals - Stjarnan eina ósigraða liðið

28.10.2021 - 21:15
Íslandsmeistarar Vals töpuðu sínum fyrsta leik í Olísdeild karla í vetur í kvöld. Liðið sótti Stjörnuna heim í Mýrina og unnu Garðbæingar með 36 mörkum gegn 33. Stjarnan er nú eina ósigraða lið deildarinnar.

Stjarnan tók forystuna strax í byrjun leiks á heimavelli sínum í kvöld. Munurinn jókst svo jafnt og þétt í fyrri hálfleik og varð mestur 7 mörk en 5 mörkum munaði í leikhléi, 19-12. 

Snemma í seinni hálfleik varð munurinn svo 9 mörk, sem var mesti munur leiksins. Valsmenn söxuðu svo jafnt og þétt á forskoti eftir þetta og þegar tæpar fimm mínútur voru eftir minnkuðu þeir muninn í 2 mörk, 33-31. Nær komust þeir þó ekki og Stjarnan vann þriggja marka sigur, 36-33.

Þetta var fyrsta tap Vals í deildinni í vetur eftir fimm sigurleiki í upphafi. Stjarnan hefur hins vegar unnið alla fimm leiki sína og sitja liðin jöfn á toppnum með 10 stig hvort lið. Stjarnan er eina lið deildarinnar sem enn hefur ekki tapað stigi.

Afturelding vann Víking svo örugglega í Mosfellsbænum, 28-19. Staðan í leikhléi var 12-8, heimamönnum í vil. Afturelding er með 8 stig eftir 6 leiki en Víkingar eru enn stigalausir og sitja á botni deildarinnar ásamt HK.