Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Eldgosið á La Palma enn í fullum gangi

28.10.2021 - 02:42
Erlent · Hamfarir · Náttúra · eldgos · kanaríeyjar · Spánn · Evrópa
epa09547921 View of Cumbre Vieja volcano during another day of eruptions in La Palma, Canary Islands, Spain, 26 October 2021.  EPA-EFE/MIGUEL CALERO
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Eldfjallið Cumbre Vieja á Kanaríeyjunni La Palma heldur áfram að spúa eldi og eimyrju af fítonskrafti þótt gígur í fjallinu hafi hrunið saman næstliðna nótt. Glóandi hraun og kolsvartir öskustrókar gengu upp af fjallinu í gær, nýjar hraunelfar streymdu niður hlíðar þess og hrundu skriðum af stað. Angel Victor Torres, landstjóri Kanaríeyja, kallar þetta mesta hamfaragos sem orðið hefur í Evrópu um hundrað ára skeið.

Hraunið sem runnið hefur í gosinu þekur nú um það bil níu ferkílómetra lands, nær 2.200 byggingar eru ónýtar og um 7.500 manns hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín síðan fjallið byrjaði að gjósa hinn 19. september síðastliðinn. Engin slys hafa orðið á fólki.

Ekkert bendir til þess að gosið sé í rénun og haft er eftir spænskum jarðvísindamönnum að það gæti allt eins haldið áfram um nokkurra mánaða skeið.