Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir til viðbótar lagðir inn á gjörgæslu í dag

27.10.2021 - 17:50
Mynd:  / 
Tveir lögðust inn á gjörgæsludeild Landspítalans með COVID-19 í dag, og eru nú alls þrír á gjörgæslu. Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar spítalans segir það óþarfa bjartsýni að ætla sér að aflétta öllum takmörkunum innanlands eftir þrjár vikur.

„Ég held að það hafi verið óraunsæ bjartsýni að halda það að þetta væri allt saman búið. Það er akkúrat það sem gerist þegar við afléttum öllum hömlum að þá blossar þetta upp, af því það eru svo margir næmir ennþá,“ segir Már.

En hverjar eru helstu áskoranirnar hjá Landspítalanum núna?

„Að manna þá starfsemi sem við erum með, og að endurskipuleggja okkur enn einn ganginn. Við erum að efla viðbragðið á göngudeildinni og á smitsjúkdómadeildinni. Svo eru núna í þessum töluðu orðum þrír einstaklingar á gjörgæslu. Þannig það þarf að endurskipuleggja þar líka. Þetta eru áskoranirnar, það er mannskapurinn og húsnæðið,“ segir Már.

Innlagnir á gjörgæslu hægja á allri starfsemi

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum í morgun var einn á gjörgæslu, og því hafa tveir bæst við í dag. En ræður spítalinn ekki við þrjá á gjörgæslu?

„Jú, það er ekki málið. Það er hins vegar það að það er mannaflafrekara og þetta fólk er dregið innan úr starfseminni, sem hægir þá á annarri starfsemi. Þetta er ekki að við getum ekki sinnt þessu, heldur verður eitthvað annað að bíða,“ segir Már.

Hann segir að helst ætti að bíða með að aflétta að fullu eins og stefnt er að eftir þrjár vikur.

„Ég held það sé ekki skynsamlegt [að aflétta] og þá er ég að tala til minna samborgara. Ég tel að við eigum að viðhalda einföldum atriðum eins og grímunotkun í fjölmenni og vera með handspritt á lofti hvar sem er. Ef flestir gera það, þá drögum við verulega úr líkum á smiti. Það hjálpar bæði heilbrigðisstofnunum og atvinnulífinu almennt,“ segir Már Kristjánsson.