Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tugum bjargað á Ermarsundi

27.10.2021 - 01:28
epa08612524 A Border Force vessel brings in migrants found off the coast of Dover in Dover, Kent, Britain, 19 August 2020. Britain and France are continuing ongoing talks to try to resolve the migrant crisis in the English Channel. Migrants from Syria and other countries are continuing to arrive along the coast of the UK in their quest for asylum.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Yfir 18.000 manns hafa náð Englandsströndum eftir hættuför yfir Ermarsundið frá Frakklandsströndum Mynd: epa
Tugum flótta- og förufólks sem freistuðu þess að komast sjóleiðina frá Frakklandi til Bretlands var bjargað úr tveimur yfirfullum manndrápsfleytum á Ermarsundinu á mánudagskvöld. Í tilkynningu franskra landamærayfirvalda segir að alls hafi 71 manneskju verið bjargað af bátunum tveimur, sem báðir eru sagðir hafa verið í afar slæmu ástandi.

Franskur dráttarbátur tók annan bátinn í tog á mánudagskvöld eftir að hann varð vélarvana skammt frá Dunkerque. Litlu síðar kom hann að öðrum bát sem svipað var ástatt um og dró hann í land. 33 voru í þeim báti.

Hundruð flótta- og förufólks freista þess nánast á degi hverjum að sigla yfir Ermarsundið, oftar en ekki í óhaffærum bátkoppum. Yfir 18.000 manns hafa náð Bretlandsströndum með þessum hætti það sem af er þessu ári samkvæmt frétt BBC, en innan við 8.500 allt árið í fyrra. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV