Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þingnefnd mælir með því að Bolsonaro verði ákærður

epa09546062 Brazilian President Jair Bolsonaro takes part in the launch of the National Green Growth Program, at the Planalto Palace in Brasilia, Brazil, 25 October 2021. The Government of Jair Bolsonaro announced on 25 October its decision to promote a green economy in Brazil, with sustainable agriculture and care for the environment, which will be in the hands of an interministerial committee. The announcement was made during a ceremony led by Bolsonaro, in which the Ministers of Economy, Paulo Guedes, and of the Environment, Joaquim Leite, highlighted Brazil's potential to move towards a green and low-carbon economy.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Yfir 600.000 manns hafa dáið úr COVID-19 í Brasilíu svo staðfest sé og líkurnar á því að Brasilíuforseti verði látinn svara til saka vegna þessa þykja fara vaxandi frekar en hitt. Meirihluti ellefu manna rannsóknarnefndar öldungadeildar Brasilíuþings samþykkti í gærkvöld að leggja blessun sína yfir og nafn sitt við 1.200 blaðsíðna skýrslu, þar sem eindregið er mælt með því að ákæra verði lögð fram á hendur forsetanum vegna framgöngu hans í heimsfaraldri kórónaveirunnar.

Í skýrslunni sem er afrakstur sex mánaða rannsóknarvinnu samkvæmt frétt AFP, er Bolsonaro sakaður um vísvitandi brot gegn brasilísku þjóðinni. Tíundað er hvernig hvorttveggja aðgerðaleysi forsetans í bólusetningar- og sóttvarnamálum og aðgerðir hans og yfirlýsingar gegn bólusetningum og sóttvarnaaðgerðum hafi ýtt undir útbreiðslu farsóttarinnar með skelfilegum afleiðingum. 

Þetta hafi leitt til þess að mun fleiri hafi veikst og dáið úr sjúkdómnum en annars hefði gerst. Einnig er kallað eftir ákæru á hendur 77 einstaklingum öðrum, þar á meðal nokkrum ráðherrum og þremur börnum Bolsonaros.

Jafnframt er þess krafist að hæstiréttur Brasilíu loki aðgangi forsetans að samfélagsmiðlum, þar sem hann noti þá grimmt til að dreifa villandi og röngum upplýsingum um COVID-19.

Ríkissaksóknari ákvarðar framhaldið

Rúmlega 600.000 dauðsföll hafa verið rakin til COVID-19 í Brasilíu, fleiri en nokkurs staðar annars staðar utan Bandaríkjanna. Þingnefndin sjálf getur ekki ákært forsetan, heldur verður skýrslan send ríkissaksóknaranum Augusto Aras, sem metur það hvort næg sönnunargögn séu fyrir hendi til að réttlæta ákæru. Þetta er ekki fyrsta tilraunin til að ákæra Bolsonaro fyrir þessar eða svipaðar sakir og hingað til hefur ríkissaksóknari úrskurðað forsetanum í hag.