Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það var ekki meiningin að sýna neina miskunn“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það var ekki meiningin að sýna neina miskunn“

27.10.2021 - 14:21

Höfundar

Óramaðurinn fer á kreik í annarri ljóðabók Brynju Hjálmsdóttur sem kom út á dögunum og nefnist Kona lítur við. Hún skiptist í þrjá hluta og fjallar um opnar og lokaðar dyr og þrá eftir aðgangi að samfélagskerfi, auk þess sem koma skækjunnar miklu er boðuð.

Ljóðskáldið Brynja Hjálmsdóttir sendi nýverið frá sér aðra ljóðabók sína sem nefnist Kona lítur við. Bókin skiptist í þrjá hluta og sá fyrsti fjallar um hinn dularfulla Óramann. Brynja kíkti í Kiljuna og sagði frá bókinni. „Hún fjallar um opnar dyr og lokaðar dyr. Í fyrsta hlutanum erum við dálítið að skoða þessar lokuðu dyr, þrána eftir að hafa aðgang að einhverju kerfi, “ segir hún um efni bókarinnar. „Í fyrsta hlutanum stöndum við fyrir utan og fylgjumst með þessari þrá. Í síðasta hlutanum fjöllum við dálítið um opnu dyrnar.“

Brynja segir að ljóðin séu hennar leið að tjáningu, líkt og þegar sumir skrifa pistla í blöðum. „Ef mér liggur eitthvað á hjarta kemur það kannski þarna,“ segir hún en viðurkennir einnig að kvæðin og myndirnar sem dregnar eru upp séu nokkuð vægðarlausar. „Það var kannski ekki meiningin að sýna neina miskunn.“

Ljóðin innihalda meðal annars vísanir í Biblíuna enda segist Brynja vera hrifin af dramatískum, hlöðnum og pólitískum texta sem þar sé að finna. Þar á meðal er tilvitnun í texta sem fjallar um skækjuna miklu sem á að vera væntanleg á dómsdegi. „Í þessari tilvitnun er skækjunni líkt við borg sem ríkir yfir konungum jarðarinnar. Mér fannst þetta skemmtileg mynd þannig að ég er í raun og veru að ímynda mér hvernig borg skækjunnar væri.“

Egill Helgason ræddi við Brynju Hjálmsdóttur í Kiljunni, hægt er að horfa á innslagið í spilaranum.