Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Óraunsæ bjartsýni hefur „smitast inn í stjórnmálin“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar Landspítalans, segir óraunsæja bjartsýni í samfélaginu hafa smitast inn í stjórnmálin. Þetta lýsi sér með umræðum um miklar afléttingar og frelsi „nokkuð sem faraldurinn leyfir ekki endilega.“

Þetta kemur fram í pistli sem Már skrifar á vef Landspítalans.

84 greindust með kórónuveiruna í gær og nýgengi er nú 241 smit á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur. Þetta er með því hæsta sem sést hefur hér á landi í kórónuveirufaraldrinum.

13 eru á sjúkrahúsi og einn liggur á gjörgæsludeild Landspítalans en sá er ekki í öndunarvél.

Verulega var slakað á öllum samkomutakmörkunum fyrir viku og til stendur að aflétta þeim að öllu leyti eftir þrjár vikur. 

Már segir í pistli sínum að daglega greinist 3 til 9 starfsmenn spítalans eða sjúklingar með COVID-19 og fara þurfi í mikla rakninga-og sóttkvíarvinnu vegna þeirra.  „ Sem dæmi var 21 óvænt greining sjúklinga/starfsmanna eða útsetning frá heimsóknargestum um helgina sem setti marga í sóttkví eða einangrun,“ skrifar Már.

Hann brýnir fyrir starfsmönnum að nota grímur því þær hafi margsannað gildi sitt. Engin smit hafi orðið frá starfsmönnum til sjúklinga þegar grímur hafa verið notaðar og ekki heldur milli starfsmanna. „Hins vegar hafa orðið nokkur smit til starfsmanna bæði frá samstarfsfólki og eins frá sjúklingum þegar reglum um bólusetningar, grímunotkun og fjarlægðarmörk hefur ekki verið fylgt.“

Már segir að óraunsæ bjartsýni hafi gripið um sig í samfélaginu sem hafi síðan smitast inn í stjórnmálin „og lýsir sér með umræðum miklar afléttingar og frelsi.“ Þetta sé ekki eitthvað sem faraldurinn leyfi sér.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV