Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hinseginleiki og afreksíþróttir geti verið til samtímis

Mynd: RÚV / RÚV

Hinseginleiki og afreksíþróttir geti verið til samtímis

27.10.2021 - 18:48
Sveinn Sampsted, sem rannsakað hefur upplifun hinsegin fólks af íþróttahreyfingunni á Íslandi, segir ákvörðun Josh Cavallo afar mikilvæga fyrir íþróttaheiminn í heild. Mikilvægt sé að fræða iðkendur og þjálfara, og auðvelda þannig íþróttafólki að koma út úr skápnum.

Josh Cavallo, leikmaður ástralska úrvalsdeildarliðsins Adelaide United, greindi frá því í dag, fyrstur karlkyns fótboltamanna sem spila í hæðsta gæðaflokki og enn eru spilandi, að hann væri samkynhneigður. Sveinn segir það alltaf vera risastórt þegar afreksíþróttamaður kemur út úr skápnum af því það sýni að það að vera hinsegin og það að vera afreksíþróttamaður geti verið til á sama tíma. Það er að segja, ef maður ætli að koma út úr skápnum þurfi það ekki að gerast eftir íþróttaferilinn.

„Þetta sýnir að maður getur verið í íþróttum og verið stoltur af því að vera hinsegin á nákvæmlega sama tíma. Sem er mjög stórt fyrir fólk sem er til dæmis í skápnum í dag og vill halda áfram að æfa íþróttina sem það elskar,“ segir Sveinn.

Umfjöllun sé auk þess alltaf góð og geti leitt til aukinnar umræðu, til að mynda í klefum íþróttafólks. Sveinn hefur meðal annars fundið í sínum rannsóknum að í eldri íþróttagreinum, eins og til dæmis fótbolta, séu fordómar í einhverjum tilfellum að berast með iðkendum sem verða síðar þjálfarar. Þjálfararnir taki þá fordóma og þann húmor sem var ríkjandi þegar þeir voru iðkendur, með sér inn í klefann sem þjálfarar. „Þess vegna er fræðsla mikilvæg, til að tækla það að þegar iðkendur verða þjálfarar þá muni þeir ekki taka brandarana með sér sem voru í klefanum árið 1960 eða 1970,“ segir Sveinn að lokum. 

Viðtalið við Svein í heild sinni má sjá í spilaranum hér efst á síðunni.