Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hefði átt að huga betur að hagfræðilegum sjónarmiðum

27.10.2021 - 19:59
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / Skjáskot
Ekki hefur verið tekið nægilegt tillit til hagfræðilegra sjónarmiða í aðgerðum íslenskra stjórnvalda í kórónuveirufaraldrinum. Þetta er mat hagfræðiprófessors sem telur að betur hefði farið á því að hugsa til lengri tíma en gert hefur verið. Hér á landi hafi aðgerðir stuðlað að jafnari tekjudreifingu en á hinum Norðurlöndunum. 

Áhrif kórónuveirufaraldursins á efnahag Norðurlandanna voru til umfjöllunar á ráðstefnu á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar í dag. Gylfi Zoëga prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands flutti þar erindi og segir að margar af þeim aðgerðum, sem íslensk stjórnvöld hafa gripið til í faraldrinum, hafi verið vel heppnaðar:

„Til dæmis kom í ljós að tekjuskiptingin, sem kom mér á óvart, hefur ekki orðið ójafnari 2020. Það er eins og þessi áhrif aðgerða stjórnvalda hafi komið í veg fyrir að ójöfnuður jykist,“ segir Gylfi.

„En það sem hefur upp á vantað, það sem hefur til dæmis komið fram hjá Dönum og Norðmönnum er að þeir tóku hagfræðivinkilinn inn í þessar sóttvarnaaðgerðir meira heldur en hér. Það voru miklu meiri tengsl á milli ráðuneytanna og háskólanna við að komast að skynsamlegri niðurstöðu.“

Að mati Gylfa eru þær aðferðir stjórnvalda hér á landi og víða erlendis að herða og slaka á aðgerðum á víxl ekki skynsamlegar frá hagfræðilegu sjónarmiði. Árangusríkara hefði verið að aðgerðir giltu í lengri tíma og að öflugar sóttvarnir valdi minna tjóni í hagkerfinu en þær vægari.

„Eitt er að taka tillit til heildarhagsmuna en ekki bara þeirra sem láta háværast og átta sig á að það er skiptihlutfall þarna á milli. Ef maður gefur einum meira frelsi, þá takmarkar maður frelsi annars. Hvar á meðalhófið að vera?“ spyr Gylfi.

„Annað hvort eru stjórnmálamenn svona mikið að hugsa um vinsældir sínar til mjög skamms tíma - nokkrar vikur í senn - eða þá að það er lobbíismi hjá háværum aðilum í atvinnulífinu.“

„Og að stjórnmálin séu eins og laufblað í vindi sem fer með þessum sem láta hæst og þurfa svo alltaf að fara til baka. Þetta er búið að ganga svo oft að þetta er farið að verða hálf vandræðalegt. Og ekki skynsamlegt, það er betra að hafa fasta reglu til langs tíma meðan þetta ástand er í heiminum,“ segir Gylfi.

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir