Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

100 dvelja í farsóttahúsum - fjölgun síðustu daga

27.10.2021 - 19:23
Mynd: RÚV / RÚV
Covid-smitum hefur fjölgað síðustu daga og í dag var greindur mesti fjöldi síðan í ágúst. Vegna þessa hefur fjölgað hratt í farsóttahúsum Rauða krossins og eru nú um hundrað manns sem þurfa að dvelja þar.

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttahúsa Rauða krossins, sagði í viðtali við Önnu Lilju Þórisdóttur, fréttamann í viðtali í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum, að mest sé þetta fólk með íslenskar kennitölur. Fólkið sé á öllum aldri, og sú yngsta aðeins fjögurra vikna. 

Rauði krossinn er með tvö farsóttahús á höfuðborgarsvæðinu og eitt á Akureyri. „Við erum að huga að því hvað við þurfum að gera en mér sýnist þetta sleppa í starfsmannamálum, í það minnsta þennan mánuðinn,“ segir Gylfi.

Oft fjölgar í farsóttahúsunum á kvöldin og býst Gylfi allt eins við því að það eigi eftir aö fjölga í kvöld. Hingað til hafi um tíu prósent af þeim sem greinist smitaðir þann daginn komið í farsóttarhús. 

Gestir farsóttahúsanna eru mis veikir, að sögn Gylfa. Oftast séu fyrstu þrír til fjórir dagarnir erfiðir. Bæði sé fólk að sætta sig við að hafa veikst og einnig koma einkennin þá fram. Hjá flestum gengur þetta hratt yfir en alltaf eru nokkrir gestir sem þurfi að fylgjast betur með.