Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tveir liggja í valnum eftir skotárás í Idaho-ríki

26.10.2021 - 01:41
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Tveir voru skotnir til bana og fjórir særðust þegar maður hóf skothríð í stórri verslunarmiðstöð í Boise, höfuðborg Idaho-ríkis í Bandaríkjunum í gær. Árásarmaðurinn var handtekinn eftir skotbardaga við lögreglu.

Lögreglumaður er meðal hinna særðu. Ryan Lee, lögreglustjóri borgarinnar segir að komið hafi til skotbardaga við manninn eftir að lögreglan var kölluð að verslanamiðstöðinni. Sá grunaði var að lokum handtekinn og Lee segir enga hættu á ferðum lengur.

Hann kveðst ekki geta tjáð sig um ástæður árásarinnar né nokkuð annað sem haft geti áhrif á rannsókn málsins. Fjöldaskotárásir eru viðvarandi vandamál í Bandaríkjum. Formælendur hertra reglna um skotvopn segja ástæðuna útbreidda byssueign í landinu og tiltölulega milda skotvopnalöggjöf.