Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Kosið verður um sameiningu Blönduóss og Húnavatnshrepps

default
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Skýr vilji er meðal íbúa Húnavatnshrepps um sameiningu við Blönduósbæ. Formlegar viðræður sveitarfélaganna hafa nú staðið yfir. Kosið verður um sameininguna 19. febrúar á næsta ári.

Vilji til sameiningar kom fram í skoðanakönnun

Eftir að sameiningu fjögurra sveitarfélaga á Norðvesturlandi; Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Sveitarfélagsins Skagastrandar og Skagabyggðar var hafnað í sumar, hafa farið fram viðræður á milli sveitarfélaganna um að sameinast tvö og tvö. 

Skýr vilji var fyrir sameiningu hjá íbúum í Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar. Fulltrúar Húnavatnshrepps létu framkvæma skoðanakönnun samhliða Alþingiskosningum í september um áhuga íbúa til sameiningar. Niðurstöður könnunarinnar sýndu sameiningarvilja íbúa og hafa viðræður nú  staðið yfir. Í febrúar mun síðan koma í ljós hvort að af sameiningunni verði.