Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fær bætur vegna árásar sem ýfði upp gömul sár

26.10.2021 - 09:13
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Héraðsdómur Vestfjarða dæmdi í gær karlmann til að greiða þrjár milljónir í bætur vegna líkamsárásar fyrir níu árum. Maðurinn var sakfelldur fyrir árásina í héraðsdómi fyrir sex árum. Sá sem varð fyrir árásinni hélt því fram að hún hefði ýft upp bakmeiðsl sem hann hefði verið að jafna sig af.

Fram kemur í dómi héraðsdóms að fyrir árásina hafi maðurinn verið með slitgigt og liðlos í baki.

Hann gekkst undir spengingaraðgerð í október 2011 og hefði átt að vera vinnufær til fyrra starfa í apríl 2012. Í júní sama ár var hins vegar ráðist á hann, honum hrint þannig að hann féll í gólfið og fékk við það þungt högg á bakið.

Héraðsdómur sakfelldi árásarmanninn fyrir sex árum en taldi ekki sannað að skrúfur sem voru í baki mannsins hefðu losnað.  Læknir sem skoðaði manninn taldi að hann hefði verið búinn að jafna sig eftir aðgerðina þegar ráðist var á hann. Líklega hefðu skrúfurnar í bakinu losnað og því hefði maðurinn þurft að gangast undir viðbótaraðgerð. 

Maðurinn krafðist þess að árásarmaðurinn yrði dæmdur til að greiða honum samtals 11 milljónir, þar af 8 milljónir fyrir tímabundið tekjutap enda hefði hann verið frá vinnu í 452 daga. 

Héraðsdómur taldi hins vegar að starfsgeta mannsins hefði verið umtalsvert skert fyrir árásina og að ástæða takmarkaðrar atvinnuþátttöku hans mætti að stærstum hluta rekja til heilsufars hans fyrir líkamsárásina.  Niðurstaða matsmanna hefði verið sú að árásin hefði leitt af sér „væga versnun á fyrri óþægindum.“

Var árásarmaðurinn því dæmdur til að greiða manninum 3 milljónir í bætur með vöxtum frá því í september 2013.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV