Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Borgarfulltrúar flestir í framboði – Dagur er óákveðinn

26.10.2021 - 08:04
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Þó svo að rúmlega hálft ár sé til sveitarstjórnarkosninga eru þónokkrir sveitarstjórnarmenn búnir að gera upp hug sinn varðandi framboð. Flestir sveitarstjórnarmenn liggja enn undir feldi og íhuga hvort að þeir sækist eftir að sitja áfram. Útlit er fyrir nokkrar breytingar í bæjarstjórn Akureyrar að loknum kosningum. Borgarstjórinn í Reykjavík er ekki búinn að ákveða hvort að hann sækist eftir endurkjöri.

Á dögunum sendi fréttastofa kjörnum fulltrúum í stærstu sveitarfélögum landsins fyrirspurn um hvort að þeir hyggist bjóða sig fram. Hér verður farið yfir þau svör sem bárust.

Reykjavík:

Borgarfulltrúar í Reykjavík ætla flestir að sækjast eftir endurkjöri. Raunar gaf enginn borgarfulltrúi það út að hann/hún ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri. Þau ýmist ætla í framboð eða liggja undir feldi.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist ekki vera búinn að taka afstöðu til endurkjörs, en hann muni tilkynna það þegar nær dregur. Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Pírata segist enn vera að hugsa málið sem og Sabine Leskopf borgarfulltrúi Samfylkingar.

Þeir borgarfulltrúar sem hafa gefið það út að þeir ætli að sækjast eftir endurkjöri eru: Alexandra Briem, Aron Leví Beck Rúnarsson, Björn Gíslason, Ellen Jacqueline Calmon,  Eyþór Arnalds, Heiða Björg Hilmisdóttir,  Hjálmar Sveinsson, Líf Magneudóttir,Marta Guðjónsdóttir,Kolbrún Baldursdóttir, Pawel Bartoszek, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Örn Þórðarson. Ekki bárust svör frá öðrum borgarfulltrúum.

Framsóknarflokkurinn sem vann mikinn kosningasigur í alþingiskosningunum er ekki kominn með nöfn á lista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar, en á næstu vikum verður haldið kjördæmaþing þar sem skýrist með hvaða hætti verður valið á lista í borginni. Flokkurinn fékk 3,2 prósent atkvæða í seinustu sveitarstjórnarkosningum og á engan fulltrúa í borgarstjórn. 

Akureyri:

Að minnsta kosti þrír bæjarfulltrúar ætla ekki að sækjast eftir endurkjöri, það eru Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs og fulltrúi Framsóknar, Gunnar Gíslason, Sjálfstæðisflokki  og Heimir Haraldsson fulltrúi Samfylkingar. Halla Björk Reynisdóttir, oddviti L-lista og forseti bæjarstjórnar segir í svari sínu að hún sé ekki búin að taka endanlega ákvörðun, en hún búist síður við því að sækjast eftir endurkjöri.

Hilda Jana Gísladóttir sem var í framboði til Alþingis í haust sækist eftir því að leiða lista Samfylkingar. Sóley Björk Stefánsdóttir, sem leiddi lista VG í seinustu sveitarstjórnarkosningum ætlar að gefa kost á sér áfram, en ekki í oddvitasætið. Þórhallur Jónsson ætlar að sækjast eftir 2.-3. sæti Sjálfstæðisflokksins en aðrir hafa ekki tekið ákvörðun eða ekki svarað fyrirspurninni.

Seltjarnarnes:

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri gaf það út fyrir 2 árum að hún ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri eftir 13 ára starf sem oddviti og bæjarstjóri. Sigurþóra Bergsdóttir, Samfylkingu, ætlar að gefa kost á sér áfram. Aðrir bæjarfulltrúar liggja undir feldi eða hafa ekki svarað fyrirspurninni.

Reykjanesbær:

Friðjón Einarsson segist ætla að sækjast eftir endurkjöri, fái hann stuðning til þess og þá sem oddviti Samfylkingar. Baldur Þórir Guðmundsson ætlar að sækjast eftir heiðurssæti á lista Sjálfstæðisflokksins. Hann hafi setið í bæjarstjórn í 12 ár og ætli að kalla það gott. Margrét Sanders segir meiri líkur en minni á að hún sækist áfram  eftir oddvitasæti hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjanesbæ.

Kópavogur:

Theodóra Þorsteinsdóttir ætlar að sækjast eftir því að leiða lista Viðreisnar í Kópavogi og Sigurbjörg Erla Egilsdóttir ætlar að sækjast eftir því að leiða lista Pírata áfram. Einnig ætlar Karen Elísabet Halldórsdóttir að sækjast eftir endurkjöri, en hún segist ekki vera búin að ákveða hvaða sæti hún sækist eftir á lista Sjálfstæðisflokksins. Aðrir bæjarfulltrúar hafa ekki brugðist við eða hafa ekki gert upp hug sinn.

Garðabær:

Áslaug Hulda Jónsdóttir, Sjálfstæðisflokki, ætlar að sækjast eftir að sitja áfram. Björg Fenger sem einnig situr í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn ætlar í framboð en segist ekki vera búin að ákveða hvaða sæti hún sækist eftir á lista. Svör bárust ekki frá fleiri bæjarfulltrúum.

Mosfellsbær:

Rúnar B. Guðlaugsson og Ásgeir Sveinsson, báðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, ætla að freista þess að sitja áfram. Valdimar Birgisson, Viðreisn,  segist vera óákveðinn. Aðrir hafa ekki brugðist við fyrirspurninni.

Árborg:

Staðið hefur á svörum frá kjörnum fulltrúum í Árborg. Tómas Ellert Tómasson brást einn við fyrirspurn fréttastofu og segist hann ekki vera búinn að ákveða hvað hann ætlar sér. Ekki sé búið að ákveða hvernig staðið verður að framboðslista Miðflokksins.

Uppfært 09:11: Kjartan Björnsson fulltrúi Sjálfstæðisflokks segist ekki vera búinn að gera upp hug sinn, en hann ætli að taka ákvörðun þegar líður á veturinn. 

Hafnarfjörður:

Jón Ingi Hákonarson vill leiða lista Viðreisnar í Hafnarfirði. Helga Ingólfsdóttir, Sjálfstæðisflokki vilja sitja áfram sem bæjarfulltrúi en hún skipaði 4. sæti á lista seinast og segist hún ekki hafa ákveðið hvaða sæti hún hyggst sækjast eftir. Sigurður Þórður Ragnarsson, Miðflokki, segist ekki vera búinn að gera upp hug sinn og ekki bárust svör frá öðrum fulltrúum.

Múlaþing:

Stefán Bogi Sveinsson, 1. varaforseti sveitarstjórnar og fulltrúi Framsóknarflokks ætlar ekki að gefa kost á sér áfram. Hann segir að hann hafi setið í sveitarstjórn í 12 ár og hann vilji að nýjar raddir fái að hljóma og annir á öðrum sviðum geri það að verkum að hann ætli að snúa sér að öðru. Hildur Þórisdóttir ætlar að sækjast eftir endurkjöri sem oddviti L- lista. Aðrir fulltrúar hafa ekki gert upp hug sinn eða ekki svarað fyrirspurninni.

Fréttin hefur verið uppfærð með viðbættum svörum sveitarstjórnarfulltrúa.